Lífið

Nýju fötin for­setans

Jón Þór Stefánsson skrifar
Vólódímír Selenskí í „jakkafötum“ á skrifstofu Bandaríkjaforseta.
Vólódímír Selenskí í „jakkafötum“ á skrifstofu Bandaríkjaforseta. EPA

Á fundi Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Vólódímírs Selenskí Úkraínuforseta í gær varð klæðaburður þess síðarnefnda meðal annars til umfjöllunar, og það ekki í fyrsta skipti. Selenskí mætti í svörtum jakka, í svartri skyrtu.

„Selenskí, þú tekur þig frábærlega út í þessum jakkafötum. Þú lítur mjög vel út,“ sagði fjölmiðlamaðurinn Brian Glenn í gamansömum tón. Glenn þessi vakti athygli í febrúar síðastliðnum þegar Trump og Selenskí funduðu í Washington-borg en þá gagnrýndi hann Selenskí harðlega fyrir að vera ekki í jakkafötum, en þá klæddur svartri peysu.

„Ég sagði það sama. Er þetta ekki fallega sagt? Þetta er sá sem réðst að þér síðast,“ sagði Trump og Selenskí svaraði:  „Ég man eftir því.“

„Ég biðst afsökunar á því. Þú lítur virklega vel út,“ sagði Glenn.

„Þú ert í sömu jakkafötunum og síðast. Ég skipti um föt, þú gerðir það ekki,“ svaraði Selenskí og uppskar hlátur viðstaddra.

Vildu fá hann í sínu fínasta pússi

Wall Street Journal segir að Hvíta húsið hafi fyrir fund gærdagsins óskað eftir því að Selenskí myndi klæðast jakkafötum og vera með hálsbindi á fundinum.

Selenskí virðist ekki hafa farið alveg eftir þessum fyrirmælum, en hann var ekki með neitt hálstau heldur hneppti upp í topp.

Þess má geta að eftir fundinn í febrúar sagði Selenskí að hann myndi ekki sjást í jakkafötum meðan stríðsástand ríkir í Úkraínu.

Síðan stríðið hófst hefur klæðnaður Selenskís einkennst af grænum eða dökklituðum fötum, oftast bolum eða peysum. Með því hefur hann þótt samsama sig úkraínsku þjóðinni meðan hún er í stríðsrekstri.

Jakkföt eða ekki?

Skilgreiningar á jakkafötum eru margar á mismunandi. Sums staðar eru þau skilgreind sem föt þar sem jakki og buxur séu úr sama efni. En annars staðar segir að þeim þurfi að fylgja skyrta, hálstau og fínir skór.

Í umfjöllun Politico segir að nýju fötin Úkraínuforsetans séu ekki hefðbundin jakkaföt heldur fatnaður í hernaðarlegum stíl.

„Í þetta skipti var Selenskí í jakkafötum, en stíll þeirra var enn í takt við hernað og sömu táknrænu framsetningu: Hann er þjóðarleiðtogi í stríði,“ hefur Politico eftir Elvíru Gasanova, hönnuði vörumerkisins Damirli, sem hefur séð um að hanna föt á Selenskí síðustu ár.

„Það er mikilvægt að hafa í huga að það er Vólódímír Selenskí sem ákveður hverju hann klæðist,“ segir Elvíra.

„Forsetinn er nú í landi þar sem hvert smáatriði skiptir sköpum, hvort sem það er útlit, hegðun eða tilfinningar. Þar af leiðandi, sem leiðtogi Úkraínu, velur hann ímyndina sem hentar hlutverki hans og augnablikinu best.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.