Veður

Litlar breytingar á hlaupi í Hvít­á við Húsa­fell frá því í gær

Lovísa Arnardóttir skrifar
Til vinstri sést hlaupið flæða niður Barnafoss árið 2020 og til hægri er brúin við Húsafellsskóg. Í hlaupinu 2020 náði vatnsborð upp að henni. Í dag eru enn 2,5 metrar í að vatnið nái að brúnni.
Til vinstri sést hlaupið flæða niður Barnafoss árið 2020 og til hægri er brúin við Húsafellsskóg. Í hlaupinu 2020 náði vatnsborð upp að henni. Í dag eru enn 2,5 metrar í að vatnið nái að brúnni. Veðurstofan

Jökulhlaup hófst í gær úr Hafrafellslóni vestan Langjökuls. Hlaupið rennur í farveg Svartár og þaðan í Hvítá í Borgarfirði. Elísabet Pálmadóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir litlar breytingar á hlaupinu frá því snemma í gærkvöldi. Ekki er mikil úrkoma á svæðinu en það bætir í hana í kvöld.

„Hlaupið er enn í gangi en vatnshæð hefur haldist stöðug síðan í gærkvöldi.“

Mælir Veðurstofunnar er staðsettur á brú við Húsafellsskóg og Elísabet segir enn um 2,5 metra í að vatnið nái brúnni. Veðurstofan fylgist vel með mælingum en sé einnig með fólk á staðnum sem fylgist náið með stöðunni. Það sé mælst til þess að íbúar gæti að búfénaði nærri árbökkum. Þó svo að hækkunin sé stöðnuð núna og hafi verið stöðug geti vatnsborðið hækkað skyndilega í slíku hlaupi.

„Þetta er greinilegt hlaup. Lónið fyrir ofan er að lækka og það er að leka úr því. Hættan er að það verði snögg og mikil hækkun sem geti náð upp í brúnna. Það eru enn 250 sentímetrar í að vatnsborðið nái í brúnna,“ segir Elísabet.

Stórt hlaup varð síðast á svæðinu árið 2020 og náði þá vatnshæðin upp í brúnna. Í skýrslu Veðurstofunnar um jökulhlaupið árið 2020 segir að dagana 17. til 18. ágúst 2020 hafi komið jökulhlaup í farveg Svartár undir Hafrafelli, við vesturjaðar Langjökuls. Hlaupið hafi síðan borist í farveg Hvítár og með henni niður eftir Borgarfirði. Hlaupvatn fyllti svo farveg árinnar undir Hvítárbrú hjá Húsafellsskógi en neðst í Hvítársíðu hækkaði vatnsborð um einn metra og eðja barst sums staðar upp á engjar.

Gæti orðið stærra

„Núna lítur þetta ágætlega út. Það hefur ekki orðið meiri hækkun en við sáum í gær en hækkunin hefur verið stöðug,“ segir Elísabet og að ef það breytist verði send út tilkynning.

Í tilkynningu Veðurstofunnar um hlaupið í gær kom fram að ekki væri hægt að útiloka að hlaupið yrði umfangsmeira en árið 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×