Fjárfestingafélagið Viska Digital Assets hefur tekið upp nýtt nafn og heitir nú Viska sjóðir. Samhliða nafnabreytingunni kynnir félagið nýjan sjóð, Viska macro, sem byggir á heildarsýn félagsins á alþjóðlegu efnahagsumhverfi. Nýr sjóður leggur áherslu á fjárfestingar í tækni og hörðum eignum, þar sem uppgangur gervigreindarinnar og áhrif hennar á hagkerfi eru leiðandi stef í stefnu sjóðsins.
Viska hefur á undanförnum þremur árum rekið Visku rafmyntasjóð, sem hefur skilað jákvæðri ávöxtun á hverju ári frá stofnun, að því er segir í tilkynningu frá félaginu, en í fyrra nam ávöxtunin um 43 prósentum.
„Frá stofnun Visku höfum við lagt áherslu á að greina og skilja þær umbreytingar sem eiga sér stað í heimshagkerfinu. Rafmyntir og bálkakeðjutækni voru fyrsti fókusinn, en við höfum jafnframt bent á að ákveðnir eignaflokkar munu einnig njóta góðs af þessum breytingum. Þar má nefna eignir eins og gull og ákveðnar hrávörur auk annarra eigna sem við munum leggja áherslu á í nýjum sjóði,“ segir Daði Kristjánsson, framkvæmdastjóri Visku sjóða.
Viska macro verður eingöngu markaðssettur gagnvart fagfjárfestum og mun að meginstefnu til fjárfesta í hlutabréfum.
„Gervigreindin er stærsta tæknibylting okkar tíma og mun að okkar mati hafa víðtækari áhrif en tilkoma internetsins. Til þess þarf gríðarlega fjárfestingu í innviðum, orku og hrávörum sem mun að okkar mati skapa mikil tækifæri á næstu árum sem Viska macro ætlar sér að nýta,“ segir Guðlaugur Gíslason, fjárfestingastjóri Visku sjóða.