Tíska og hönnun

„Hugsa fal­lega til stelpunnar sem ég var þá“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Ofurskvísan og fyrirsætan Aníta Ósk er viðmælandi í Tískutali.
Ofurskvísan og fyrirsætan Aníta Ósk er viðmælandi í Tískutali. Aðsend

„Ég held sérstaklega mikið upp á skósafnið mitt. Þetta eru skór sem ég hef keypt á nytjamörkuðum víða um heiminn og aðrir skór frá merkjum sem ég held upp á,“ segir hin 21 árs gamla Aníta Ósk, fyrirsæta, sporðdreki og tískudrottning. Aníta hætti í viðskiptafræði og ákvað að elta drauminn en hún flytur til Mílanó í október og hefur nám í skartgripahönnun við listaháskólann IED.

Aníta ræddi við blaðamann um tískuna, fataskápinn og hennar stíl. Ásamt fyrirsætustörfunum starfar hún í tískuverslununum Yeoman og Hringekjunni og er full tilhlökkunar að hefja nám á Ítalíu. 

Aníta Ósk er að flytja til Mílanó að læra skartgripahönnun.Aðsend

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?

Fyrir mér getur tískan verið listrænt tjáningarform og það sem mér finnst skemmtilegast við tískuna er túlkun og tjáning hvers og eins á henni. 

Mér finnst gaman að sjá hvað við nálgumst tískuna á ólíkan hátt, hvað hún er persónuleg og einkennandi fyrir hvern og einn. Mér finnst einnig áhugvert hvaða áhrif klæðaburður hefur á líðan manns og stemninguna sem skapast í kringum mann.

Sjálf klæði ég mig eftir því hvernig ég er stemmd hverju sinni. Stundum langar mig að klæða mig upp og vera svaka skvísa en aðra daga kann ég virkilega að meta frelsið í því að vera bara í kósígallanum. Það er einmitt þessi fjölbreytni sem gerir tískuna lifandi og spennandi.

Aníta elskar að sjá hvernig við tjáum okkur á einstakan máta í gegnum tískuna.Aðsend

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?

Áður en ég tala um mína uppáhalds flík er vert að nefna að ég held sérstaklega mikið upp á skósafnið mitt. Ef það í heild sinni væri flík þá væri það uppáhalds flíkin mín. Ég hef lengi safnað fullt af alls konar skóm, þó aðallega hælum og stígvélum. 

Þetta eru til dæmis skór sem ég hef keypt á nytjamörkuðum víða um heiminn og aðrir skór frá merkjum sem ég held upp á. Ég er mjög stolt af þessu safni og það mun halda áfram að stækka.

Núna að flíkinni, ég á nokkrar flíkur sem ég dýrka en sú sem er í uppáhaldi hjá mér þessa dagana er kápa sem ég keypti nýlega í Gyllta kettinum.

Þetta er svört og síð leðurkápa sem er í yfirstærð (e. oversized) með loðkraga alla leið niður. Þetta er eiginlega bara ég ef ég væri kápa!

Kápan umrædda er í algjöru uppáhaldi hjá Anítu sem og skósafnið hennar.Aðsend

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?

Heilt yfir eyði ég ekki mjög miklum tíma í að velja föt dags daglega, ég hoppa bara í eitthvað og vona að það lúkki.

Hins vegar ef eitthvað er planað fram í tímann, viðburður eða annað, get ég eytt klukkutímunum saman í að finna hið fullkomna lúkk. 

Það kemur samt stundum fyrir að ég sé búin að ákveða hverju ég ætla að klæðast nokkrum dögum áður, en svo þegar kemur að deginum tengi ég bara ekki lengur við það sem ég hafði valið og þarf að byrja upp á nýtt. Oftast eru það þessar reddingar á síðasta snúning sem skila skemmtilegustu samsetningunum.

Aníta Ósk hefur gaman að því að klæða sig upp fyrir ákveðin tilefni.Aðsend

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?

Ég myndi lýsa stílnum mínum í dag sem góðri blöndu af „karllegum“ og „kvenlegum“ þáttum. Ég hef alltaf elskað að blanda meira „masculine“ stílþáttum við lúkkin mín eins og t.d. stórar skyrtur, bindi og jakkaföt. Ég bæti þá öðrum kvenlegri þáttum við eins og t.d. hælum og skarti.

Ég elska að skreyta mig með alls konar fylgihlutum, mikið af alls konar skarti og sólgleraugum, húfur og hattar, klútar og töskur og bara allt sem mér dettur í hug sem getur gert outfittið áhugaverðara.

Þegar kemur að litum hallast ég alltaf að svörtum og ef ég vil eitthvað bjartara er ég að vinna með hvítt frekar en liti og munstur þó það komi nú fyrir. 

Mér finnst mjög gaman að vinna meira með áferð og útlínur og vinn ég mikið með lög af fötum eða layering, en það er alveg geggjað konsept fyrir kaldari daga.

Aníta elskar að vinna með áferð og lög af fötum í klæðaburði.Aðsend

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?

Stíllinn minn hefur breyst gríðarlega mikið í gegnum tíðina. Ég hef alveg frá því ég var krakki haft mikla skoðun á því hverju ég klæðist en svo þegar ég byrjaði í menntaskóla fór ég að þora að fara meira út fyrir þægindarammann og prófa mig áfram. 

Ég myndi segja að minn persónulegi stíll hafi fyrir alvöru byrjað að þróast á menntaskólaárunum en hann var mjög skrautlegur til að byrja með. 

Á þessum árum var ég farin að versla mikið af vintage og notuðum fötum en það hefur klárlega sett svip á stílinn minn og mun það fylgja mér áfram. Það er bara svo gaman að eiga einstaka flík með sögu.

Þegar ég lít til baka á mína tískuvegferð eru tímabil sem ég myndi ekki endurtaka. Þessi tímabil hafa hins vegar mótað mig í þá manneskju sem ég er í dag og hugsa ég fallega til þeirra og stelpunnar sem ég var þá.
Aníta er þakklát fyrir öll sín tískutímabil. Aðsend

Nýturðu þess að klæða þig upp?

Ég elska að klæða mig upp. Ég er alltaf spennt fyrir því að finna mér föt og fylgihluti, mála mig og gera mig sæta, svo er ekki verra að smella nokkrum myndum af lokaútkomunni.

Skemmtilegur klæðaburður getur brotið upp hversdagsleikann og gefið deginum skemmtilegan blæ.

Skemmtilegur klæðnaður getur sannarlega brotið upp á hversdagsleikann.Aðsend

Hvað skiptir þig mestu máli í klæðaburði?

Það sem skiptir mig mestu máli í klæðaburði er að líða vel í fötunum. Klæðaburður fyrir mér er eitthvað sem getur ýtt undir sjálfstraust og þegar það er uppi þá er skapið uppi.

Vellíðan er mikilvægasta hráefnið í klæðaburði hjá Anítu.Aðsend

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?

Ég safna mikið af gömlum tímaritum og bókum sem mér finnst mjög gaman að fletta í gegnum og sæki þaðan innblástur. 

Mér finnst líka gaman að horfa á kvikmyndir og þær geyma alls kyns gersema en svo er það bara gamla góða Pinterest sem klikkar seint.

Aníta sækir innblásturinn víða, þar á meðal á Pinterest. Aðsend

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?

Ég reyni að hafa engar reglur þegar kemur að klæðaburði. Mér finnst mikilvægt að hafa svigrúm og frelsi til að prófa nýja hluti því persónulegur stíll er í stöðugri þróun.

Eina reglan sem ég fylgi er að vera alltaf trú sjálfri mér, hvort sem það tengist klæðaburði eða öðru.

Eina reglan sem Aníta fylgir er að vera trú sjálfri sér.Aðsend

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?

Ætli það sé ekki gala kjóllinn minn frá því ég var í Versló. Þetta er hvítur vintage síðkjóll með perlum sem eru einhvern vegin í laginu eins og köngulóavefir. 

Mér þykir alltaf mjög vænt um þennan kjól og ég passa hann mjög vel, enda gamall og viðkvæmur. 

Það sem er svo kannski eftirminnilegast um þennan ágæta kjól er að hann kostaði mig heilar 1000 krónur.
Kjóllinn umræddi.Aðsend

Hvað finnst þér heitast fyrir haustið?

Þegar veðrið fer að kólna finnst mér layering alltaf koma sterkt inn og þetta haust er engin undantekning.

Mér finnst fylgihlutir eins og grifflur, loðhúfur, hné háir sokkar eða skemmtilegar sokkabuxur geta gert beisikk lúkk aðeins áhugaverðari.

Haustið er tíminn þar sem ég verð alltaf extra skotin í og leðri og loði í hvaða formi sem er, leðurjakkar og buxur, loðkápur og húfur, leðurstígvél og hanskar, bara hvað sem er, I love it.

Nýja leður og loðkápan mín er því fullkomin til að starta þessu hausti með stæl og ég er súper spennt að nota hana endalaust mikið.

Loð, lög og fylgihlutir eru heitir fyrir veturinn!Aðsend

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?

Mitt besta ráð er að hlusta á sjálfa sig og hafa gaman af ferlinu. Ekki pæla of mikið í reglum eða hvað öðrum finnst, ef þú fílar það sem þú ert í þá skín það út á við.

Svo er gott að muna að maður er alveg jafn mikill töffari þótt maður sé ekki alltaf eins og klipptur úr tímariti.

Aníta fer eigin leiðir og er algjör töffari á hennar hátt. Aðsend

Hér má fylgjast með Anítu á samfélagsmiðlinum Instagram. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.