Enski boltinn

Fantasýn: „Ekki kaupa Isak núna“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexander Isak er dýrasti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.
Alexander Isak er dýrasti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. getty/Nikki Dyer

Alexander Isak er loksins kominn til Liverpool og margir Fantasy-spilarar velta því eflaust fyrir sér hvað eigi að gera við hann. Strákarnir í Fantasýn freistuðu því að svara því í nýjasta þætti þeirra.

Eftir mikið havarí keypti Liverpool Isak á lokadegi félagaskiptagluggans. Hann kostaði 125 milljónir punda og er dýrasti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Strákarnir í Fantasýn telja ekki líklegt að Isak byrji næsta leik Liverpool sem er gegn Burnley þarnæsta sunnudag.

„Mér finnst það ólíklegt. Ég las að það væru fjórtán vikur síðan hann æfði með einhverjum liðsfélögum. Það var þegar hann mætti á landsliðsæfingu með Svíþjóð. Mér finnst mjög ólíklegt að hann byrji fyrsta leik, sérstaklega í ljósi þess hversu vel [Hugo] Ekitike hefur verið að spila og líka [Cody] Gakpo. Hann kemur væntanlega inn á í þessum leik og það ræðst væntanlega á því hversu tilbúinn hann er til að byrja,“ sagði Albert Þór Guðmundsson í nýjasta þætti af Fantasýn.

Ekitike hefur farið vel af stað með Liverpool en margir Fantasy-spilarar spyrja sig nú að því hvort þeir eigi að selja hann fyrst Isak er kominn.

„Í fyrsta þættinum töluðum við um að Ekitike og Gakpo væru góðir kostir til skamms tíma. Þangað til Isak kæmi væru þeir öruggir. En nú er Isak kominn og þeir eru að minnsta kosti þrír um þessar tvær stöður svo við tölum ekki um Rio [Ngumoha] og [Federico] Chiesa sem vilja fá einhverjar mínútur,“ sagði Albert.

„Isak var keyptur á allan þennan pening og er væntanlega ætlað að fara beint inn í byrjunarliðið. En ætlar [Arne] Slot að finna leið til að láta hann og Ekitike spila saman? Fer annar hvor þeirra út til vinstri eða verður Ekitike fyrir aftan Isak eða fer [Florian] Wirtz út á kant?“

Þeir Albert og Sindri Kamban ræddu einnig hvað Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, myndi gera þegar þátttaka liðsins í Meistaradeild Evrópu hæfist og álagið myndi aukast. Þeir voru sammála um að Slot myndi jafnan spila á sínu sterkasta liði en reyna að dreifa álaginu eins og þurfa þyki.

„[Mohamed] Salah er alltaf fastinn. Ég myndi ekki kaupa Isak núna, ég myndi ekki kaupa Ekitike eða Gakpo núna. Ef ég ætti þá myndi ég halda þeim að minnsta kosti í einn leik,“ sagði Albert.

Hlusta má á Fantasýn hér fyrir neðan en þáttinn má finna á öllum helstu hlaðvarpsveitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×