Handbolti

Valur sótti nauman sigur norður

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Dagur Árni Heimisson skoraði fjögur mörk fyrir Val.
Dagur Árni Heimisson skoraði fjögur mörk fyrir Val. vísir / anton

Valur slapp með 27-26 sigur eftir að hafa glutrað góðri forystu gegn Þór á Akureyri í þriðju umferð Olís deildar karla.

Staðan var jöfn í hálfleik en í upphafi seinni hálfleiks tóku Valsmenn afgerandi forystu, sem varð mest fimm mörk.

Þá tóku Þórsarar aftur við sér og minnkuðu muninn, niður í aðeins eitt mark þegar tíu mínútur voru eftir.

Síðustu mínúturnar urðu því æsispennandi en mikilvæg varsla hjá Björgvini Pál Gústavssyni á lokamínútunni fór langt með að tryggja sigur. Valur tapaði boltanum hins vegar í næstu sókn og kom sér aftur í vandræði, en Þórsarar náðu ekki að nýta sér það.

Igor Chiseliov stal boltanum og brunaði í sókn en var stöðvaður. Leikurinn endaði svo á aukakasti frá honum sem rataði ekki á rammann.

Igor var markahæstur heimamanna með sjö mörk en Brynjar Hólm Grétarsson og Hafþór Már Vignisson fylgdu honum eftir með fimm mörk hvor.

Andri Finnsson var markahæstur Valsmanna með fimm mörk.

Valur hefur nú unnið tvo af fyrstu þremur leikjunum, eftir tap gegn FH í síðustu umferð. Þór hefur hins vegar tapað tveimur í röð og enn í leit að öðrum sigri eftir að hafa lagt ÍR í fyrstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×