Lífið

Elín tendrar eldana fyrir Lauf­eyju

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Elín Hall naut sín á sviði Laugardalshallar í ágúst þegar hún hitaði upp fyrir bandarísku rokkhundana í Smashing Pumpkins.
Elín Hall naut sín á sviði Laugardalshallar í ágúst þegar hún hitaði upp fyrir bandarísku rokkhundana í Smashing Pumpkins. Mummi Lú

Elín Hall mun hita upp fyrir Laufeyju á tvennum tónleikum hennar í Kórnum í Kópavogi 14. og 15. mars. Uppselt er á fyrri tónleikana en enn mögulegt að fá miða í dýrari plássum á síðari tónleikana.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Senu Live sem skipuleggur tónleikana. Elín Hall hitaði upp fyrir bandarísku rokksveitina Smashing Pumkins í ágúst en uppselt var á tónleikana sem fram fóru í Laugardalshöll.

Elín, sem er bæði leik- og tónlistarkona, hefur átt lög á toppi vinsældarlista hér heima og vinnur að því að koma sér á framfæri erlendis. Í tilkynningu Senu Live segir að hún vinni með Grammy-verðlaunahafanum Martin Terefe að nýju efni fyrir alþjóðlegan markað. Sá hefur bæði unnið með Youngblud og Shawn Mendes.

Fyrsta alþjóðlega smáskífa hennar, Heaven to a Heathen, kom út í júní síðastliðnum. Sem leikkona hlaut hún verðlaun fyrir besta leik í kvikmyndinni Ljósbrot á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Chicago og Edduverðlaun á Íslandi. Myndin var einnig valin til þátttöku á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Árið 2025 var Elín valin ein af rísandi stjörnum Evrópu.

Elín átti einnig að leika aðalhlutverkið í Óresteiu, jólasýningu Þjóðleikhússins í ár, en þurfti frá að hverfa eins og Vísir greindi frá í morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.