Lífið

Boð­beri jólanna risinn á ný

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Að venju hefur verið sett upp girðing í kringum geitina.
Að venju hefur verið sett upp girðing í kringum geitina. Vísir/Magnús Hlynur

Ár hvert spyrja landsmenn sig hvenær það sé ásættanlegt að skreyta fyrirtæki og heimili fyrir jólin. Nú má gera ráð fyrir að fólk keppist við að klára að útbúa jólaauglýsingar og skreytingar því boðberinn sjálfur er mættur. IKEA-geitin hefur risið á ný.

Fyrir nokkrum vikum mátti sjá heilu staflana af piparkökum í verslunum Bónus og aðdáendur grænu jólakökunnar fögnuðu þegar tilkynning barst að framleiðsla hennar væri hafin á ný. Auglýsingar fyrir hina ýmsu jólatónleika hafa ómað í útvarpstækjunum í einhvern tíma. Að mati undirritaðrar má þó jólatíðin ekki hefjast fyrr en hin eina sanna geit rís í Kauptúninu.

„Jólin byrja formlega hjá okkur á fimmtudaginn þannig við erum búin að vera á fullu að undirbúa bæði innan- og utanhúss,“ segir Guðný Camilla Aradóttir, fjölmiðlafulltrúi IKEA.

„Við ætlum að kveikja á henni á fimmtudag og hún er komin í sparigallann.“

IKEA-geitin varð landsmönnum kunnug vegna hinna ýmsu hrakfara sem hún hefur lent í. Árið 2011 fauk geitin og síðar kviknaði í geitinni út frá ljósaperu sem prýddi hana. Geitin hefur brunnið að minnsta kosti þrisvar sinnum, síðast árið 2016 þegar þrír brennuvargar lögðu eld að henni.

Brennuvargarnir voru sóttir til saka og látnir greiða 150 þúsund krónur fyrir verknaðinn.

Geitin hefur fengið að standa nú óáreitt síðan en girðingu er enn komið fyrir í kringum geitina. Árið 2015 tóku forsvarsmenn IKEA upp á því að vera með sólarhringsvakt í kringum hana til að stöðva brennuvarga. Guðný segir að sólarhringsvaktin verði áfram til staðar þetta árið.

„Við pössum hana auðvitað mjög vel,“ segir Guðný.


Tengdar fréttir

Geitin er risin fyrr en nokkru sinni

IKEA-geitin er risin í Kauptúni og er sérstaklega snemma á ferðinni. Hún hefur undanfarin ár verið tendruð um miðjan október en er nú komin á sinn stað nokkrum dögum fyrr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.