Íslenski boltinn

Sigurður Egill svarar yfir­lýsingu Vals: Ómakleg og lág­kúru­leg setning

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Egill Lárusson að loknum síðasta heimaleik sínum með Val.
Sigurður Egill Lárusson að loknum síðasta heimaleik sínum með Val. Vísir/Sigurjón

Sigurður Egill Lárusson taldi sig þurfa að svara yfirlýsingu Vals frá því í dag en það gerði hann á stuðningsmannasíðu Valsmanna í kvöld.

Sigurður lék sinn síðasta heimaleik með Val í gær og skoraði þá í 4-4 jafntefli. Áður hafði komið í ljós að samningur hans við Val yrði ekki endurnýjaður en hann hefur leikið með Val frá 2013 og er leikjahæsti leikmaður félagsins í efstu deild.

Vísir hefur fengið senda færslu Sigurðar Egils á Fjósinu, þar sem hann ræðir yfirlýsingu Valsmanna frá því fyrr í dag.

Sigurður Egill segir þar meðal annars að stjórn knattspyrnudeildar hafi gefið út upplýsingar um samningamál hans sem hann hafði aldrei gefið leyfi fyrir að yrðu gerðar opinberar.

Sigurður segist hafa kosið að fá þessa tilkynningu augliti til auglits eða þá með símtali en ekki með tilkynningu á miðlum félagsins.

Hann segist einnig að hann hefði kosið að klára þennan kafla innan dyra félagsins á jákvæðan og heiðarlegan hátt en ekki með skilaboðum á messenger og yfirlýsingu í fjölmiðlum.

„Ég verð einnig að fá að hnýta í eftirfarandi setningu sem mér finnst bæði ómakleg og lágkúruleg: “Það er ekki fjárhagslega ábyrgt af okkar hálfu að greiða í framtíðinni fyrir afrek fortíðar.“ Þetta mál snýst ekki um peninga eða fortíð, heldur um samskipti og virðingu,“ skrifaði Sigurður Egill.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×