Innlent

Fugla­flensa greinist í refum

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Refir í náttúrunni.
Refir í náttúrunni. VÍSIR/VILHELM

Skæð fuglaflensa af gerðinni H5n5 hefur greinst í þremur sýnum sem tekin voru úr veikum refum að undanförnu. Sama gerð skæðrar fuglainflúensu greindist í fuglum á Norðvesturlandi í september.

Frá þessu er greint á vef Matvælastofnunar en þar segir að undanfarið hafi fundist veikir refir, einn á Þingeyri og þrír við Keflavíkurflugvöll.

„Skæða afbrigði fuglainflúensuveiru H5N5 greindist fyrst í spendýrum hérlendis síðastliðinn vetur í heimilisköttum, einum mink og einum ref, dreift víða um land. Þetta afbrigði hefur einnig greinst í villtum spendýrum í öðrum löndum á norðurhveli þar sem villtir fuglar hafa verið sýktir af sama afbrigði H5N5,“ segir í tilkynningu MAST.

Fuglaeigendur eru hvattir til að gæta ítrustu smitvarna við umgengni á sínum fuglahópum, og jafnframt hvetur MAST almenning til að tilkynna um veika og dauða fugla, og villt spendýr sem það finnur.

Veika villta fugla eða spendýr skuli þó ekki handleika nema með góðum sóttvörnum.

„Veiðimenn eru hvattir til að sýna varkárni við veiðar og verkun villtra fugla. Ekki skal veiða fugla og nýta til matar sem haga sér óeðlilega eða eru sjáanlega veikir/slappir. Þó skal það tekið fram að fuglar sem virðast heilbrigðir geta líka verið smitaðir af fuglainflúensu. Matvælastofnun hefur gefið út leiðbeiningar fyrir veiðimenn um meðhöndlun allra veiddra fugla á tímum fuglainflúensu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×