Lífið

Eitt glæsi­legasta hús Reykja­víkur til sölu

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Húsið þykir eitt glæsilegasta hús borgarinnar.
Húsið þykir eitt glæsilegasta hús borgarinnar.

Við Öldugötu í miðborg Reykjavíkur stendur tæplega 400 fermetra einbýlishús á þremur hæðum, byggt árið 1927. Húsið er steinað að utan með Hrafntinnu og Silfurbergi og telst eitt glæsilegasta og virðulegasta hús borgarinnar. Óskað er eftir tilboði í eignina.

Húsið er að mestu upprunalegt og ber sjarma þess tíma, með viðarklættum veggjum, skrautlistum í lofti og frönskum gluggum. Á gólfum er ýmist marmari eða ljóst viðarparket með fiskibeina- og stjörnumynstri.

Aðalhæðin skiptist í stórar og opnar stofur með aukinni lofthæð, bókastofu og borðstofu, rúmgott eldhús með búr og bakinngangi, auk gestasnyrtingar.

Á efri hæð eru hjónaherbergi, tvö svefnherbergi og baðherbergi með gufubaði. Frá gangi er útgengt á góðar svalir með útsýni yfir miðbæ og vesturbæ Reykjavíkur.

Í kjallara hússins er endurnýjuð fjögurra herbergja íbúð með sérinngangi, eldhúsi, baðherbergi og þvottahúsi.

Umhverfis húsið er fallega gróinn garður með gosbrunni og mosavaxnum steinum sem umlykja blómabeð og tré.

Nánari upplýsingar á fasteignavef Vísis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.