Innlent

Á­stæða fyrir því að genaumræðan hafi ekki náð mikilli út­breiðslu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Eva Heiða Önnudóttir, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. 
Eva Heiða Önnudóttir, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.  Vísir/Bjarni

Fordómafullar og öfgakenndar skoðanir hafa fengið stærri vettvang og auðveldara er að koma þeim á framfæri en áður með tilkomu æ fleiri hlaðvarpsþátta, að mati stjórnmálafræðings.

„Ég er ekkert bara að tala um menningu. Ég er að tala um bara genamengi, líka það skiptir miklu máli. Leyf mér að spyrja þig, ef einhver kallar þig rasista? Já. Hvað, hvernig líður þér með það? Ég segi að ég sé bara race realist.“

Þessi ummæli Sverris Helgasonar í Bjórkastinu þar sem rætt var um útlendingamál hafa vakið mikla athygli. Ástæðan er sú að Sverrir var þar til fréttir voru birtar af ummælum hans stjórnarmaður í ungliðahreyfingu Miðflokksins.

Formaður Miðflokksins vildi ekki veita viðtal vegna málsins en Sverrir hefur farið mikinn á samfélagsmiðlinum X í umræðunni um útlendingamál. Þar hefur hann meðal annars talað um að berjast gegn úrkynjun og hnignun íslensks samfélags og um það hvernig gen hafi áhrif á getu manna til að aðlagast samfélögum. Eva Heiða Önnudóttir stjórnmálafræðingur segir umræðuna á villigötum.

Umræðan á villigötum

„Ofbeldishneigð, eða svona neikvæð hegðun ef maður getur orðað það þannig, sem er auðvitað óásættanleg, það hefur ekkert með gen að gera. Það hefur með aðstæður fólks að gera þegar það er að alast upp og félagslegar og efnahagslegar aðstæður. Þannig þessi genaumræða er á algjörum villigötum,“ segir Eva Heiða. 

Alls konar skoðanir eigi rétt á sér en fólk hafi líka rétt á að andmæla þeim. Slíkar skoðanir fái gjarnan byr undir báða vængi í sístækkandi hópi hlaðvarpsþátta sem lúta ekki sömu reglum og venjulegir fjölmiðlar. 

„Þar af leiðandi geta ýmsar skoðanir sem eru kannski ekki mjög útbreiddar í samfélaginu fengið vettvang þar. Þessar skoðanir hafa auðvitað verið til í langan tíma en hafa kannski ekki fengið vettvang og það er kannski ástæða fyrir því vegna þess að þetta stenst enga skoðun með þessa genaumræðu,“ bætir Eva við.

„Svo getur fólk haft skoðanir á því hvort fólk sem komi úr ólíkum menningarheimum eigi kannski erfiðara með að búa saman hlið við hlið eða það þarf meiri aðlögun eða hvernig sem það er. En það hefur ekkert með kynþætti eða gen að gera.“

Hér má sjá nokkrar af færslum Sverris á samfélagsmiðlinum X.


Tengdar fréttir

Ungur Miðflokksmaður gengst við rasisma og segir af sér

Miðflokksmaðurinn Sverrir Helgason hefur sagt sig úr stjórn Ungliðahreyfingar Miðflokksins í kjölfar umfjöllunar um rasískar yfirlýsingar hans. Nýverið sagði hann genamengi skipta máli þegar kæmi að uppbyggingu samfélaga og sagði það ekki myndu trufla sig að vera kallaður rasisti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×