Innlent

Árelía kveður borgar­pólitíkina

Agnar Már Másson skrifar
Árelía er eini sitjandi borgarfulltrúi Framsóknar sem hefur útilokað framboð í komandi sveitarstjórnarkosningum.
Árelía er eini sitjandi borgarfulltrúi Framsóknar sem hefur útilokað framboð í komandi sveitarstjórnarkosningum. Vísir/Vilhelm

Árelía Eydís Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, sækist ekki eftir sæti á lista flokksins í næstu borgarstjórnarkosningum. Hún hyggst aftur hefja störf við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Framsóknarmenn hafa ákveðið að hátta listavali í Reykjavík með tvöföldu kjörþingi.

Þetta tjáði hún samflokksmönnum sínum á kjörþingi flokksins í Reykjavík í dag.

„Mér finnst einhvern veginn komið gott fyrir mig eftir fjögur ár,“ segir Árelía Eydís við Vísi sem náði tali af henni er hún gekk af kjördæmaþingi Framsóknar í Reykjavík sem lauk á tíunda tímanum í kvöld.

Árelía kom inn í borgarstjórn eftir stórsigur Framsóknarmanna í borgarstjórnarkosningunum 2022 og var formaður skóla- og frístundaráðs þann tíma sem flokkurinn var í meirihlutasamstarfi með Samfylkingunni, Pírötum og Viðreisn. Í febrúar var nýr meirihluti myndaður og er Framsóknarflokkurinn nú í minnihluta.

„Nú mun ég bara fara aftur upp í háskóla,“ bætir hún við en hún er dósent í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og kennir þar forystu og stjórnun. Hún tekur fram að nú mæti hún reynslunni ríkari úr borgarstjórn. „Þetta var ekki hugsað lengra en til fjögurra ára.“

Á fundinum ákváðu Framsóknarmenn einnig að hátta listavali sínu með svokölluðu tvöföldu kjördæmaþingi en þannig hátta þeir yfirleitt listavali á sveitarstjórnarstigi. Haldnir verða tveir fundir, 31. janúar annars vegar og 7. febrúar hins vegar, þar sem kosning fer fram í eitt sæti í einu (fyrsta sæti, svo annað o.s.frv.) þar til eftir stendur einn sigurvegari í hverju sæti.

Árelía er eini sitjandi borgarfulltrúi Framsóknar sem hefur útilokað framboð í komandi sveitarstjórnarkosningum. Fylgi flokksins hefur dregist verulega saman frá síðustu sveitarstjórnarkosningum. Einar Þorsteinsson, núverandi oddviti og fyrrverandi borgarstjóri, eftir oddvitasætinu.

Magnea Gná Jóhannsdóttir borgarfulltrúi Framsóknarflokksins hefur einnig sagst íhuga að sækjast eftir oddvitasætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×