Lífið

Glæsihús augn­læknis til sölu

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Húsið var byggt árið 1956 og er sérlega glæsilegt.
Húsið var byggt árið 1956 og er sérlega glæsilegt.

María Soffía Gottfreðsdóttir, augnlæknir, hefur sett einbýlishús sitt við Háuhlíð í Reykjavík á sölu. Um er að ræða 368 fermetra hús á tveimur hæðum, byggt árið 1956, þar af 30 fermetra bílskúr. Óskað er eftir tilboði í eignina.

Húsið hefur fengið gott viðhald og verið endurnýjað að nær öllu leyti á liðnum árum. Heimilið er prýtt klassískum hönnunarhúsgögnum og fallegum listaverkum, í bland við antíkmublur.

Efri hæðin er opin og björt, með ljósu viðarparketi á gólfi. Franskir gluggar og hurðir  gefa eigninni sjarmerandi karakter og fágað yfirbragð.

Stofa, sjónvarpsherbergi, borðstofa og eldhús mynda samliggjandi rými. Arinn er í stofunni og úr borðstofunni er útsýni hvoru megin, annars vegar upp í Öskjuhlíð og hins vegar yfir miðbæ Reykjavíkur, líkt og úr stofunni.

Úr holi er gengið niður tvö þrep inn á svefnherbergisgang með þremur svefnherbergjum, þar á meðal rúmgott hjónaherbergi með sérbaðherbergi. Á ganginum er stór þakgluggi sem varpar fallegri birtu inn í rýmið.

Frá enda svefnherbergisgangs er gengið út á stóran, skjólgóðan sólpall með heitum potti, auk heitrar og kaldrar sturtu.

Úr holinu liggur steyptur stigi niður á neðri hæð, sem skiptist í sjónvarpsrými, tómstundarherbergi, þrjú svefnherbergi og tvö baðherbergi.

Nánari upplýsingar um eignina má nálgast á fasteignavef Vísis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.