Innlent

Á­hugi á Val­höll

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Björg Ásta segir ýmsa hafa lýst yfir áhuga á Valhöll.
Björg Ásta segir ýmsa hafa lýst yfir áhuga á Valhöll. Vísir

Sjálfstæðismenn hafa fengið góð viðbrögð frá áhugasömum kaupendum vegna sölunnar á Valhöll. Ekki er hægt að upplýsa um stöðuna á söluferlinu að öðru leyti.

Þetta kemur fram í skriflegu svari frá Björgu Ástu Þórðardóttur framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins. Hið sögufræga hús við Háaleitisbraut sem hefur verið höfuðstöðvar flokksins í tæp fimmtíu ár, frá 1975 var auglýst til sölu í upphafi þessa mánaðar.

Ekkert verð var gefið upp en tilboða var óskað. Birti flokkurinn heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu.

„Einstaklega reisulegt og sögufrægt 2.732,7 m² hús á frábærum stað miðsvæðis í Reykjavík. Húsið var byggt árið 1975 fyrir starfsemi Sjálfstæðisflokksins en þar hefur einnig ýmis önnur starfsemi verið rekin,“ sagði í auglýsingunni.

„Um er að ræða eitt af þekktari kennileitum Reykjavíkur og er hér um að ræða tækifæri fyrir aðila að tryggja sér eign sem getur nýst undir hina ýmsu starfsemi s.s. sem skrifstofuhúsnæði, heilsu eða ferðatengda þjónustu o.s.frv.“

Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft aðsetur í húsinu frá því það var byggt. Vísir/Vilhelm

Leita að nýju húsnæði

Haft var eftir Guðrúnu Hafsteinsdóttur formanni flokksins að leit standi yfir að nýjum og nútímalegum höfuðstöðvum flokksins. Smíði nýs húss séu þó afar ósennileg. Húsnæðismál flokksins hafi verið til skoðunar í nokkuð langan tíma og séu hluti af heldarendurskoðun á starfsemi hans til framtíðar.

„Við höfum fengið góð viðbrögð frá áhugasömum aðilum en get ekki upplýst um stöðuna að öðru leyti, að svo stöddu,“ segir Björg Ásta í skriflegu svari til Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×