Lífið

Fjar­lægði tón­listina þar til nýja platan hefur verið fjár­mögnuð

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Fannar Ingi hefur fjarlægt tónlist Hipsumhaps af streymisveitum.
Fannar Ingi hefur fjarlægt tónlist Hipsumhaps af streymisveitum. Terezia Rotter

Tónlistarmaðurinn Hipsumhaps fjarlægði alla tónlist sína af streymisveitum í byrjun vikunnar. Í nýrri yfirlýsingu tónlistarmannsins segist hann ekki ætla að gefa út nýja plötu sína, eða birta eldri lög á streymisveitum, fyrr en gerð plötunnar hefur verið fjármögnuð.

Það vakti athygli fyrr í vikunni þegar öll tónlist tónlistarmannsins Hipsumhaps var tekin út af tónlistarstreymisveitum, þar á meðal á Spotify. Fannar Ingi Friðþjófsson, sem gefur út tónlist undir nafninu Hipsumhaps, birti yfirlýsingu á heimasíðu sinni þar sem hann greinir frá ástæðunni.

„Ég elska tónlist. Ég elska að skapa hana og mig langar að eiga farsælan feril sem tónlistarmaður. En það er einfaldlega ekki sjálfbær rekstur að leggja út nokkrar milljónir í plötu, gefa hana svo út á streymisveitum fyrir lítið eignarhald og vinna áfram við tónleika og önnur afleidd verkefni til að mæta kostnaði við hljóðritið án þess að greiða mér laun,“ skrifar Fannar og segist vilja geta verðlagt tónlistina sína en streymisveitur bjóði ekki upp á slíkt í dag.

Fjórða platan hans, sem ber titilinn Algrím hjartans, er tilbúin en hann ætlar ekki að birta hana, eða önnur eldri lög sín, fyrr en gerð plötunnar hefur verið fjármögnuð.

„Ég trúi því að fullt af fólki kunni að meta það sem ég er að gera og vilji borga fyrir nýja tónlist. Þess vegna leita ég til fólks og fyrirtækja eftir styrkjum við útgáfu plötunnar,“ skrifar Fannar á heimasíðu Hipsumhaps.

„Að lokum vil ég skora á íslensk stjórnvöld að skapa betra rekstrarumhverfi fyrir sjálfstæða tónlistarútgáfu.“

Áður fjarlægt tónlist af veitum

Þetta er að vísu ekki í fyrsta skiptið sem Fannar Ingi tekur tónlist Hipsumhaps af streymisveitum. 

Nýársdag árið 2022 tók hann plötuna Lög síns tíma af öllum veitum og seldi hana einvörðungis á heimasíðu sinni Hipsumhaps.is. Allur ágóði plötunnar þaðan rann til Votlendissjóðs.

Hún rataði á endanum aftur á veiturnar en er nú, eins og önnur tónlist sveitarinnar, horfin á ný.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.