Innlent

Stór­aukið fjár­magn til Frú Ragn­heiðar

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Frú Ragnheiður er á vegum Rauða krossins.
Frú Ragnheiður er á vegum Rauða krossins. Stjórnarráðið

Sjúkratryggingar Íslands og Rauði krossinn á Íslandi hafa gert áframhaldandi samkomulag um samning um skaðaminnkandi þjónustuna Frú Ragnheiði. Ýmsar breytingar eru í samningnum og fær verkefnið mun meira fjármagn en áður.

Frú Ragnheiður er skaðaminnkunarverkefni fyrir einstaklinga með vímuefnavanda. Með nýjum samningi fer fjármagn starfseminnar úr tæpum 23 milljónum í fimmtíu milljónir á ársgrundvelli. 

Markmið verkefnisins er að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll og óafturkræfan skaða og einnig að auka lífsgæði og bæta heilsufar einstaklinga sem nota vímuefni. Samfélagslegur ávinningur af verkefnum Frú Ragnheiðar er til að mynda lækkun á tíðni sýkinga og útbreiðslu smitsjúkdóma líkt og HIV, færri dauðsföll af völdum ofskömmtunar, ábyrgari notkun vímuefna og minna af notuðum sprautubúnaði í almenningsrýmum.

„Skaðaminnkun og lágþröskuldaþjónusta í nærumhverfi þeirra viðkvæmu einstaklinga sem Frú Ragnheiður sinnir er liður í því að bæta þjónustu við fólk sem glímir við fíkn og mikilvægt fyrir samfélagið allt,“ er haft eftir Ölmu Möller heilbrigðisráðherra í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Alls fara um 3,2 milljarðar króna á ári í áfengis- og vímuefnameðferðir. Í nýsamþykktum fjárlögum eru fjárframlög til slíkrar meðferðar um hálfum milljarði króna hærri. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×