Innlent

Leggja hald á skip á alþjóðahafsvæði undan ströndum Venesúela

Agnar Már Másson skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur haft horn í síðu Nicolas Maduros.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur haft horn í síðu Nicolas Maduros. AP/Alex Brandon

Bandaríkjamenn hafa stöðvað og lagt hald á skip á alþjóðahafsvæði undan strönd Venesúela en þetta gerist aðeins nokkrum dögum eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti setti hafnbann á öll olíuflutningaskip til og frá Venesúela sem sæta refsiaðgerðum.

Bæði CBS og Reuters hafa þetta eftir heimildarmönnum í Hvíta húsinu en hafbannið sem Trump tilkynnti í vikunni var enn eitt skrefið hjá Bandaríkjastjórn í þá átt að setja aukinn þrýsting á ríkisstjórn Nicolas Maduro. 

Þetta er í annað sinn á síðustu vikum sem Bandaríkin leggja hald á stórt skip. Auk þess hefur Bandaríkjaher gert fjölmargar árásir á litla báta sem þau segja að standi í fíkniefnainnflutningi frá Venesúela til Bandaríkjanna. Hvorki Reuters né CBS fengu það upp úr heimildarmönnum sínum nákvæmlega hvar haldlagningin átti sér stað.

Bandaríska strandgæslan mun hafa staðið fyrir aðgerðunum. Hvorki Gæslan né Pentagon hafa tjáð sig um málið og vísuðu spurningum til Hvíta hússins, sem brást ekki strax við, að sögn Reuters.

Maduro og hans menn í Venesúela hafa sakað Trump um heimsvaldastefnu og sjórán. Hann sagðist í ræðu í vikunni vera staðráðinn í að verja heimaland sitt þannig að friður megi ríkja í Venesúela að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×