Innlent

Gyðingar á Ís­landi upp­lifa aukinn ótta

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Ljósahátíð gyðinga var hleypt hátíðlega stað í miðbæ Reykjavíkur fyrir viku síðan.
Ljósahátíð gyðinga var hleypt hátíðlega stað í miðbæ Reykjavíkur fyrir viku síðan. Gyðingasamfélagið á Íslandi

Gyðingar á Íslandi hafa upplifað aukinn ótta í kjölfar hryðjuverka Hamasliða 7. október 2023. Gyðingur búsettur hér á landi segir í samtali við ísraelskan fréttamiðil að landslagið hafi breyst og að hann sé ekki eins opinskár með það að hann sé gyðingur síðan yfirstandandi stríð hófst.

Ísraelski miðillinn Times of Israel birti í dag umfjöllun um samfélag gyðinga á Íslandi og ræddi við gyðinga sem eru búsettir hér á landi.

Landslagið breytt

Fyrir viku síðan hófst ljósahátíð gyðinga, hanúkka, sem er fagnað af gyðingum um allan heim. Í Reykjavík var tilefnið markað með því að kveikt var á ljósum svokallaðrar menóru sem er kertastjaki sem er táknrænn fyrir hátíðina. Að viðburðinum stóð rabbíninn Avraham Feldman sem tilheyrir Chabad-söfnuði gyðinga og eiginkona hans Mushky. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra sótti viðburðinn og flutti þar erindi.

„Það hefur mikið breyst fyrir mig síðan sjöunda október. Áður var ég nokkuð opinskár með það að ég sé gyðingur, en landslagið er breytt,“ er haft eftir bandarískum gyðingi sem er búsettur á Íslandi.

Hann segir sömuleiðis að hann hafi flutt með maka sínum á nýtt heimili og pantað helgiskrín, svokallað mezuzah, til að hengja yfir útidyrahurðina, en hikað við að setja það upp.

„Í fyrsta sinn var ég hikandi við að setja ljósahátíðarstjakann [hanukkah menorah] í gluggann,“ en bætti svo við að líklega myndu flestir Íslendingar ekki þekkja táknið í ljósi þess hve vinsælt jólaskraut slíkir sjöarmastjakar eru.

Mikil fáfræði

Bandarískur gyðingur að nafni Mike Klein sem er einnig búsettur hér á landi segir Íslendinga ekki gera greinarmun á trúuðum og trúlausum gyðingum. Íslendingar líti margir á trúarbrögð sem frekar úrelt og gamaldags fyrirbæri.

„Umræður um að ég sé gyðingur verða oft óþægilegar, að hluta til vegna núverandi pólitískra aðstæðna, en sömuleiðis vegna þess að Íslendingum finnst það skrítið að ég skuli kjósa að torvelda mér lífið með samsemd minni í Gyðingdómi mínum þegar ég er að öðru leyti frekar vel samþykktur,“ segir hann.

Annar bandarískur gyðingur sem er búsettur hér á landi sem miðillinn ræddi við segir gyðingaandúð á Íslandi oft frekar grundvallast á vanþekkingu en beinu hatri.

„Það er mikil fáfræði,“ er haft eftir henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×