Íslenski boltinn

Kynntu Sigurð á slaginu sex á að­fanga­dag

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sigurður Egill er orðinn Þróttari.
Sigurður Egill er orðinn Þróttari. Mynd/Þróttur R.

Þróttarar voru ekki undanskildir jólaandanum á aðfangadag og kynntu um vænan liðsstyrk á samfélagsmiðlum félagsins á slaginu sex. Sigurður Egill Lárusson, leikmaður Vals í efstu deild til fjölda ára, mun leik í Laugardal í Lengjudeildinni komandi sumar.

Sigurður Egill er uppalinn Víkingur en hefur stærstan hluta ferils síns leikið með Val. Eftir ellefu ár á Hlíðarenda skildu leiðir Sigurðar og Vals í haust en hann yfirgaf félagið sem leikjahæsti leikmaður þess í efstu deild, þremur Íslandsmeistaratitlum og tveimur bikartitlum ríkari.

Sigurður er 33 ára gamall og hefur spilað tæplega 600 keppnisleiki hér á landi. Hann hefur leikið sem kantmaður og bakvörður stærstan hluta ferilsins.

„Sigurður Egill hefur verið í fremstu röð knattspyrnumanna á Íslandi um árabil og það er mikill fengur að honum í okkar raðir. Leikmenn með reynslu sem þessa, viðhorf og metnað eru sannarlega ekki á hverju strái og við trúum því að hæfileikar hans nýtist vel í þeirri knattspyrnu sem Þróttur leggur áherslu á. Með komu Sigurðar fær Þróttur í sínar raðir leiðtoga sem við teljum að muni skila miklu til félagsins, jafnt innan sem utan vallar. Við Þróttarar bjóðum Sigurð velkominn í Laugardalinn,“ er haft eftir Kristjáni Kristjánssyni, formanni knattspyrnudeildar Þróttar, í yfirlýsingu félagsins.

Þróttur átti glimrandi tímabil í Lengjudeildinni í fyrra en féll úr leik í undanúrslitum umspils um sæti í Bestu deild karla.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×