Lífið

Búinn að sturta sig með fötu síðan í nóvember

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Gunnar Smári Egilsson fékk það í nýársgjöf að fá sturtuna sína aftur í gang.
Gunnar Smári Egilsson fékk það í nýársgjöf að fá sturtuna sína aftur í gang. Vísir/Vilhelm

Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Samstöðvarinnar, lenti í því óláni að það bilaði vatnslögn í húsinu hans um miðjan nóvember þannig hann gat ekki sturtað sig í einn og hálfan mánuð. Það kom þó ekki að sök því hann lærði að fara í fötubað í Afríku.

Gunnar Smári greindi frá þessu í Facebook-færslu upp úr hádeginu í dag.

„Það bilaði vatnslögn í húsinu um miðjan nóvember og það hefur tekið tímann sinn að finna út úr því og leggja nýjar lagnir. Framkvæmdir eru ekki búnar, en það er aftur komið vatn inn á bað, ég fékk það í nýársgjöf. Ég get sem sé farið í sturtu. Sem er fínt,“ skrifar hann í færslunni.

„En það var líka fínt að fara í fötubað, sem ég lærði í Afríku þar sem vatnslagnir eru ekki alltaf svo advanseraðar að þær endi í sturtuhaus, þar sem vatn er ekki óþrjótandi og dýrt að hita það upp,“ skrifar hann.

Skúringafata, lítil skál og tveir þvottapokar

Telur Gunnar að um tíu lítrar af vatni renni úr sturtu á hverri mínútu svo sjö mínútna sturta kalli á sjötíu lítra af vatni.

„Mér dugar hins vegar ein 10 lítra skúringafata í fötubað. Ef einhver vill spara vatn ætti hann að baða sig upp úr fötu. Eina sem þarf er skúringafata, lítil skál til að ausa vatninu yfir sig og tveir þvottapokar. Mér fannst reyndar gott að hafa líka eilítið heitara vatn í minni fötu, bara til að leika mér að því að blanda vatninu og sulla svolítið,“ skrifar hann.

„En nú hef ég misst þá gleði, helvítis tæknin hefur aftur lagt undir sig baðherbergið með sínum fábreytileika og niðurdrepandi þægindum,“ skrifar hann að lokum og setur með færslunni mynd af afrísku barni baða sig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.