Innlent

Furða sig á við­brögðum Þor­gerðar sem dregur í land

Agnar Már Másson skrifar
Þorgerður Katrín neitaði að segja til hvort Bandaríkin hefðu brotið alþjóðalög. Nú virðist hún draga í land.
Þorgerður Katrín neitaði að segja til hvort Bandaríkin hefðu brotið alþjóðalög. Nú virðist hún draga í land. Samsett Mynd

Fjöldi fólks hefur lýst furðu sinni á viðbrögðum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra vegna árásar Bandaríkjanna í Venesúela en í viðtölum í gær vildi hún hvorki fordæma árásina né viðurkenna að hún væri brot á alþjóðalögum. Í nýrri samfélagsmiðlafærslu virðist ráðherrann reyna að draga í land og tekur fram að ekkert land megi „fara á svig við þjóðarrétt, beita hervaldi eða ganga inn í annað“.

Í samtali við Vísi í gærkvöldi neitaði Þorgerður utanríkisráðherra að fordæma árás sem Bandaríkjamenn framkvæmdu á Venesúela í skjóli nætur í fyrrinótt. Þar var harðstjórinn Nicolás Maduro, forseti landsins, tekinn höndum ásamt eiginkonu sinni og þau flutt úr landi til New York þar sem þeirra beið ákæra fyrir fíkniefnahryðjuverk og kókaíninnflutning.

Sömuleiðis kom fram í máli Trump sjálfs að Bandaríkin færu nú með stjórn í Venesúela um óákveðinn tíma sem hann útskýrði ekki nánar. Trump sagði að olían myndi „flæða sem skyldi“ og bandarískar olíusamsteypur myndu reisa við olíuframleiðsluinnviði landsins.

Þorgerður fagnaði brotthvarfi Maduros og hrósaði því hvað aðgerðin hafi verið þaulskipulögð.

Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík og prófessor í stjórnskipunarrétti, segir að gagnrýna verði slíkar árásir.

„Bann við vopnaðri árás á annað ríki er algert grundvallarprinsipp í þjóðarétti og er í Stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Maduro á enga vorkunn skilið - svindlaði í kosningum og stjórnaði með hörku. En þessa aðgerð verður samt að kalla sínu rétta nafni og verður að andmæla. Smáríki verða að halda sig við að alþjóðalög skipti máli. Annars eru Jonas (olía), Mette (auðlindir Grænlands) og þau sem mótmæla hatursorðræðu (sbr. ummæli Rubio í dag) næst,” skrifar Ragnhildur á Facebook. Með Mette á hún við Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur og með Jonas á hún væntanlega við Jonas Gahr Støre forsætisráðherra Noregs. Helga Vala Helgadóttir, lögmaður og fyrrverandi þingmaður, tók undir og deildi dærslunni.

Ragnhildur Helgadóttir, lagaprófessor og rektor Háskólans í Reykjavík.Vísir

Utanríkisráðherra eigi að segja af sér

„Utanríkisráðherra Íslendinga finnst gott að framið sé valdarán í fullvalda ríki í þeim yfirlýsta og opinbera tilgangi [sic] að ræna landið auðlindum,“ skrifar verkalýðsleiðtoginn Sólveig Anna Jónsdóttir á Facebook en hún segir að Þorgerður utanríkisráðherra styðji glæpi og gripdeildir, mannrán og morð.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.Vísir/Anton Brink

„Utanríkisráðherra á að segja af sér - manneskja sem hugsar svona er ekki fær til að gegna þessari stöðu í frjálsu lýðræðisríki.“

Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, brást einnig við og sagði viðbrögð utanríkisráðherra til skammar

Kveikja í húsinu sem eftirstríðskynslóðin skildi eftir

Þegar utanríkisráðherrann var spurður hvort framferði Bandaríkjanna vekti ekki ugg á Grænlandi svaarði hún á þann veg að mikilvægt væri að framfylgja alþjóðalögum, einkum gagnvart Nató-ríkjum en vildi ekkert svara um hvort árás Bandaríkjamanna á Venesúela teldist brot a alþjóðalögum.

„Þar höfum við það,“ skrifar Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, lögmaður og fyrrverandi þingmaður Pírata, í færslu á Facebook. „Alþjóðalög skipta bara máli ef það hallar á hlut NATO ríkja.“ 

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.Vísir/Vilhelm

Henni segist ekki hafa dottið í hug að sjá þetta „jafn hreinskilnislega og skilmerkilega sett fram.“ Þórhildur skilur ummæli ráðherra svo að Bandaríkin megi fara í stríð við hvaða land sem er, skella í valdarán og hernám og „bara pjúra arðrán.“

Allt sé þetta snar- og kolólöglegt samkvæmt alþjóðalögum. „Bandaríkin mega bara ekki gera þetta gagnvart NATO, þar skiptir máli að alþjóðalög séu virt,“ skrifar hún.

„Þetta eru leiðtogar Evrópu í dag. Engin prinsipp og engin virðing fyrir alþjóðalögum. Það á bara að kveikja í húsinu sem eftirstríðskynslóðin byggði og labba hlæjandi í bankann.“

Einar Sveinbjörnsson veðurfæðingur gat varla orða bundist. „Við hér á Íslandi eigum allt undir því að sjálfsákvörðunarréttur þjóða sé virtur,“ skrifar hann á Facebook. „Ef þetta er afstaða Íslands og ríkisstjórnarinnar sem birtist í þessu viðtali í gær er hún dapurleg. Vekur sterk hugrenningatengsl við andvaraleysið sem ríkti 1937-1939. Það vita allir hvað við er átt!“

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.

Þorgerður ekki einhver áhrifavaldur að selja orkudrykki

Atli Þór Fanndal, fyrrverandi blaðamaður, segist ekki skilja viðbrögð utanríkisráðherra. Í fyrsta lagi hafi Ísland sent mikinn fjölda fólks úr landi til þessa einræðisherra, sem sé einfaldlega botnlaus grimmd.

„Þannig að það er svolítið spánskt að tala núna eins og innrás sé bara smámál eftir að hafa stundað það að afhenda þessum stjórnvöldum fólk, stjórnvöldum sem eru víst svo hræðileg að það er varla til umhugsunar hvort svona aðferðir eigi við að mati ráðherra,“ skrifar hann en árið 2023 gættu stjórnvöld að veita öllum Venesúelabúum sem hingað komu hæli.

„Maduro er engin vorkunn en það er ef til vill ekki alveg fullorðið af utanríkisráðherra smáríkis að tala eins og virðing við alþjóðalög sé kannski svolítið smámál. Ísland á um það bil allt undir því að reglur séu virtar. Utanríkisráðherra er ekki einhver áhrifavaldur að selja orkudrykki,“ skrifar hann enn fremur.

Ummæli hennar séu stefnumótandi. „Hún er persónugerð ráðuneytis sem fer með utanríkisstefnu Íslands. Fyrir þjóð sem telur sig friðelskandi af slíkri afneitun og meðvirkni að það stappar í trylling er eðlilegt að ætlast til þess að utanríkisráðherra tali skýrt og fyrir stillingu.“

Venesúelamenn á Íslandi fagna

Alberto Marcano, venesúelskur maður sem búið hefur á landinu í sex ár, stingur einnig niður penna um málið en hann fagnar aðgerðinni. Hann vill meina að Venesúela hafi hvort eð er gefið öðrum ríkjum, svo sem Írön, Rússlandi og Kína olíu.

„Ef að við þurfum að skila olíu og gefa honum meira er gjaldið sem við þurfum að greiða til að frelsa okkur undan þessu krabbameinni sem kallast Chavismi, þá eru Venesúelamenn meira en sáttir við að gera það,“ skrifar hann á ensku.

Hann kveðst loksins sjá vonarglætu. Fjöldi Venesúelamanna fór einnig í kommentin undir fyrrnefndri færslu Sólveigar Önnu og lýstu ánægju sinni með aðgerðina.

Dregur í land

Í nýrri Facebook-færslu sem birtist í dag virðist ráðherrann draga í land. Þar skrifar Þorgerður Katrín að hún muni á morgun mæta á fund utanríkismálanefndar, sem hún hafi óskað eftir í gær að yrði kölluð saman vegna ólgu í alþjóðamálum.

„Ísland er smáríki. Allt okkar öryggi, fullveldi og rödd í alþjóðasamfélaginu byggir á því að alþjóðalög og stofnsáttmáli Sameinuðu þjóðanna séu virt - alltaf, óháð því hvaða ríki á í hlut. Ekki síst þegar um stórveldi er að ræða,“ skrifar hún.

„Það er mín afstaða. Og hún er skýr; engin þjóð á rétt á því að fara á svig við þjóðarrétt, beita hervaldi eða ganga inn í annað ríki án skýrrar stoðar í alþjóðalögum. Hvorki Bandaríkin né önnur ríki.“

Hún tekur þó fram að á sama tíma hafi Íslendingar lengi gagnrýnt einræðisríki, mannréttindabrot og kúgun, hvar sem þau eigi sér stað.

„Nicolás Maduro og forveri hans, Hugo Chávez, hafa brotið gegn borgaralegum réttindum og lýðræðislegum grundvallargildum og það höfum við sagt skýrt, meðal annars á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Fólkið í Venesúela á rétt á friðsamlegum lýðræðislegum umbótum, þar sem mannréttindi, réttarríki og vilji almennings ráða för,“ bætir hún við.

„Við getum og verðum að standa samtímis gegn einræði og mannréttindabrotum - og gera ófrávíkjanlega kröfu um að alþjóðalög og þjóðarréttur séu virt. Sama hver á í hlut. Prinsippin skipta máli einmitt þegar á reynir. [...] Þar stendur Ísland. Og þar stend ég.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×