Lífið

Magnús Ei­ríks­son er látinn

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Magnús Eiríksson ásamt sonum sínum.
Magnús Eiríksson ásamt sonum sínum. Mummi Lú

Magnús Eiríksson, texta- og lagahöfundur, er látinn 80 ára að aldri.

Ríkisútvarpið greinir frá andláti hans.

Magnús fæddist í Reykjavík 25. ágúst árið 1945, sonur Eiríks Ólafssonar og Rannveigar Axelsdóttur. Magnús stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og lærði á gítar hjá Gunnari H. Jónssyni, Karli Lilliendahl og Jóni Sigurðssyni.

Tónlistarferil Magnúsar má rekja aftur til 1961 þegar hann lék með E.M. sextett sextán ára. Einnig lék hann með Sexunum og Skuggasveinum og gekk síðan til liðs við bítlasveitina Pónik árið 1964. Sveitin naut töluverðra vinsælda og bauðst að fara til Lundúna að tak upp lög haustið 1966. Hóf Magnús þar að semja lög og texta og átti síðan eftir að verða einn vinsælasti lagahöfundur landsins.

Að neðan má heyra hátíðarviðtal Þorgeirs Ástvaldssonar við Magnús Eiríksson á Bylgjunni árið 2021.

Magnús stofnaði Blúskompaníið, elstu blússveit landsins, árið 1967 með Erlendi Svavarssyni trommuleikara og Jóni Garðari Elíssyni bassaleikara og störfuðu þeir saman með hléum um langa hríð. Um svipað leyti stofnaði Magnús félagsskapinn Blue note, áhugamannaklúbb um blústónlist sem stóð fyrir blústónleikum og öðrum tengdum uppákomum.

Samhliða tónlistinni vann Magnús í dagvinnu, var til sjós og vann hjá tengdaforeldrum sínum í hljóðfæraversluninni Rín. Hann varð síðar eigandi og var jafnan kenndur við hana, kallaður Maggi í Rín. Í versluninni starfaði um tíma ungi gítarleikarinn Kristján Kristjánsson sem síðar átti eftir að starfa mikið með Magnúsi.

Mannakorn, Brunaliðið og gomma ástkærra laga

Á áttunda áratugnum stofnaði Magnús hljómsveitina Mannakorn með þeim Pálma Gunnarssyni, Baldri Má Arngrímssyni og Birni Björnssyni. Hljómsveitin gaf út sína fyrstu plötu, Mannakorn, árið 1975 og varð fljótt ein vinsælasta sveit landsins og gaf út tíu plötur á fjörutíu árum. 

Magnús gekk árið 1978 til liðs við súpergrúppuna Brunaliðið sem samanstóð af Magnúsi Kjartanssyni, Pálma Gunnarssyni, Sigurði Karlssyni, Þórði Árnasyni, Ladda, Ragnhildi Gísladóttur og Diddú. Sveitin starfaði frá 1978 til 1980 en gaf þó út fjórar plötur.

Magnús samdi ógrynni laga og ógjörningur að telja þau upp. Mörg þeirra má telja með  ástkærustu lögum þjóðarinnar, þar á meðal „Ég er á leiðinni“, „Þorparinn,“ „Einhvers staðar einhvern tímann aftur “ og „Reyndu aftur“ svo nokkur séu nefnd.

Magnús hlaut heiðursverðlaun íslensku tónlistarverðlaunanna árið 1999, fálkaorðuna árið 2014 og hlautfyrstur manna þakkarorðu íslenskrar tónlistar á Degi íslenskrar tónlistar 2024 á sérstökum hátíðartónleikum til heiðurs honum í Eldborgarsal í Hörpu.

Magnús var einn af stofnendum og fyrsti formaður Félags tónskálda og textahöfunda og var formaður STEFs í nokkur ár.

Eiginkona Magnúsar var Elsa Guðrún Stefánsdóttir en hún lést árið 1999. Þau eignuðust þrjá syni sem Magnús skilur eftir sig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.