Tónlist

Kristinn Svavars­son er látinn

Agnar Már Másson skrifar
Kristinn Svavarsson spilaði í kryddsíldinni gamlársdag 2024.
Kristinn Svavarsson spilaði í kryddsíldinni gamlársdag 2024. Vísir/Hulda Margrét

Kristinn Svavarsson, kennari og saxófónleikarinn sem gerði garðinn frægan með hljómsveitinni Mezzoforte, er látinn 78 ára að aldri.

Þetta kemur fram í Facebook-færslu frá Þórunni Helgu Guðbjörnsdóttur, eiginkonu hans. Hann bjó síðustu ár lífs síns í Hveragerði.

Kristinn fæddist 15. desember 1947 og ólst upp í Reykjavík. Hann nam skipasmíði í Iðnskólanum í Reykjavík til 1977 og útskrifaðist síðar með kennarapróf frá Kennaraháskóla Íslands árið 1990. Þá kláraði hann einnig próf sem tónlistarkennari árið 1993, með áherslu á blásturshljóðfæri en hann lék bæði á saxófón og flautu.

Frá unglingsárum starfaði Kristinn við tónlist en hann hefur leikið á saxafón með fjölda hljómsveita. Hann spilaði með Pónik og Blúskompaníinu á 7. áratugnum. Svo var hann meðal stofnenda Mídasar árið 1972 sem spilaði nokkrum sinnum á Keflavíkurflugvelli áður en sveitin leystist svo upp eftir eitt ár þegar Kristinn gekk til liðs við Musicamaxima (1973).

Hann spilaði víða og gekk meðal annars til liðs við Brimkló árið 1980, en líklegast er hann þekktastur fyrir hlutverk sitt í Mezzoforte.

Kristinn varð í raun að andliti Mezzoforte þegar hann var formlega genginn til liðs við sveitina árið 1982, um það leyti sem hún var á hátindi ferils síns.

Margir kannast væntanlega við saxófónblástur Kristins í laginu „Garden Party“, slagara Mezzoforte af plötunni „Surprise Surprise“ sem rataði í tónlistarþáttinn Top of The Pops á BBC þegar það kom út 1982. Það fór í 17. sæti breska vinsældalistans og má segja að það hafi sett íslenska fönktónlist á kortið. 

„Fyrir marga var hann svona ígildi söngvara,“ sagði Eyþór Gunnarsson, hljómborðsleikari Mezzoforte, um Kristin í viðtali í Kastljósi 2002.

Kristinn starfaði einnig sem aðstoðarskólastjóri Laugarnesskóla frá 2010 til 2019 en hann hlaut mastersgráðu í kennslufræðum árið 2007 og svo diplómu í opinberri stjórnsýslu 2015.

Kristinn skilur eftir sig sjö börn sem öll eru vaxin úr grasi. Eiginkona hans greinir frá því að útför hans fari fram í Lindakirkju næsta fimmtudag, 29. janúar.

Síðustu ár hefur Kristinn verið ötull við tónsmíðar og gefið út nokkrar plötur með tónlist eftir sig og aðra sem má finna á Spotify.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.