Enski boltinn

Van Dijk segir að það hafi „klár­lega verið brotið á sér“ í sigurmarkinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool, ræðir við Michael Salisbury dómara í leiknum í kvöld.
Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool, ræðir við Michael Salisbury dómara í leiknum í kvöld. Getty/Catherine Ivill

Liverpool var búið að vinna sig upp úr 2-0 holu á erfiðum útivelli en fékk á sig mark í uppbótartíma og tapaði 3-2 á móti Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Liðið hafði ekki tapað síðan í nóvember en hefur enn ekki unnið deildarleik á árinu 2026.

Fyrirliðinn Virgil van Dijk var líka niðurdreginn þegar hann kom í viðtal eftir leikinn.

Mjög erfitt að kyngja því

„Að fá á sig þetta mark á síðustu mínútu leiksins, það er mjög erfitt að kyngja því,“ segir Virgil van Dijk við Sky Sports.

„Við lögðum mikið á okkur, sérstaklega í seinni hálfleik, til að komast aftur inn í leikinn. Að fá á sig mark svona seint eru mikil vonbrigði,“ sagði Van Dijk.

Hann segir að það hafi „klárlega verið brotið á sér“ í sigurmarki Bournemouth. Varðandi fyrsta markið þeirra segir hann að vindurinn hafi gert það erfitt að meta boltann inn í teiginn og gaf í skyn að Liverpool hefði kannski átt að sparka boltanum út af til að fá varamanninn inn á.

Dómarinn og VAR dæmdu ekki neitt

Van Dijk sást ræða við dómarann eftir seint mark Bournemouth og útskýrði það fyrir okkur: „Það sem ég fann á vellinum var að það var klárlega brotið á mér en dómarinn og VAR dæmdu ekki neitt. Ég get staðið hér og sagt að þetta hefði ekki átt að vera mark en það var dæmt, svo það er bara þannig,“ sagði Van Dijk.

Bournemouth skoraði tvö mörk á sjö mínútum í fyrri hálfleiknum.

„Það var erfitt að meta fyrra markið, vindurinn var mjög erfiður svo það var flókið. Að fá það mark á sig er ekki stórmál en það er ekki gott. Að fá á sig tvö mörk á stuttum tíma er alls ekki gott. Markið sem við skoruðum rétt fyrir hálfleik var virkilega mikilvægt fyrir skriðþungann í seinni hálfleik,“ sagði Van Dijk sem skoraði það mark sjálfur.

Þetta innkast kostaði okkur sigurinn

„Á endanum kostaði þetta innkast okkur sigurinn. Eftir leik og á svona augnabliki er auðvelt að segja að hann hefði átt að gera þetta, hann hefði átt að gera hitt og ég veit að það er það sem mun gerast en við ákváðum að halda boltanum og á endanum náðu þeir honum. Það er aldrei góð tilfinning að tapa, sérstaklega sem leikmaður Liverpool,“ sagði Van Dijk.

„Á þessu tímabili erum við að reyna að finna stöðugleika. Ég held að það sé engin spurning um samheldni okkar en við þurfum enn að finna stöðugleikann. Við fengum mikið lof fyrir frammistöðu okkar [gegn Marseille] og svo tapar maður leik eins og í dag og þá snýst heimurinn á hvolf,“ sagði Van Dijk.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×