Innlent

Þrjár hlutu heiðurs­verð­laun

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Viðurkenningarhafarnir þrír.
Viðurkenningarhafarnir þrír. Silla Páls Mirror Rose

Þrjár konur hlutu heiðursverðlaun á Viðurkenningarhátíð Félags kvenna í atvinnulífinu. Meðal verðlaunahafa er fyrrverandi borgarstjóri.

Eva María Þórarinsdóttir Lange, stofandi og framkvæmdastjóri Pink Iceland, Erna Magnúsdóttir, framkvæmdastýra Ljóssins, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi borgarstjóri, utanríkisráðherra og forstjóri Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE, voru heiðraðar.

Viðurkenningahátíð FAK fór fram á miðvikudagskvöld á Hótel Reykjavík Grand. Fjöldi gesta úr atvinnulífi og samfélagi kom saman. Rúmlega eitt hundruð tilnefningar bárust í öllum flokkum verðlaunanna. Í dómnefndinni sátu Benedikt G'islason, Davíð Stefánsson, Isabel Alejandra Diaz, Rannveig Grétarsdóttir, Rán Flygenring og Þuríður Aradóttir Braun.

Þrjár konur heiðraðar

Eva María hlaut verðlaunin FKA Viðurkenning 2026 fyrir framúrskarandi frumkvöðlastarf í ferðaþjónustu og jafnréttismálum. 

„Undir hennar forystu hefur Pink Iceland haft veruleg áhrif á íslenskt atvinnulíf og ímyNd Íslands á alþjóðavettvangi. Eva maría hefur verið öflug talskona jafnréttis og fjölbreytileika og skapað nýtt rými fyrir konur og hinsegin einstaklinga í atvinnulífinu. Hún er skýr fyrirmynd í frumkvöðlastarfi, forystu og samfélagslegri ábyrgð,“ segir í fréttatilkynningu.

Erna hlaut Hvatningarviðurkenningu FKA fyrir „athyglisvert frumkvæði og nýsköpun í þjónustu og samfélagslegum rekstri“. Hún er stofnandi og framkvæmdastjóri Ljóssins og að mati dómnefndar hefur byggt upp einstaka endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur þeirra. 

Að lokum hlaut Ingibjörg Sólrún Þakkarviðurkenningu FKA.

„Ingibjörg Sólrún hefur alla tíð verið óhrædd við að beita rödd sinni fyrir mannréttindum, jafnrétti og lýðræði og skapað rými fyrir konur til þátttöku, áhrifa og ábyrgðar. Með forystu sinni hefur hún rutt brautina fyrir heilar kynslóðir kvenna og lagt ómetanlegt ævistarf í þágu jafnréttis og samfélagslegrar ábyrgðar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×