Lífið

„Ég er femín­isti“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Pétur Marteinsson vann prófkjör Samfylkingarinnar um síðustu helgi og leiðir flokkinn í næstu borgarstjórnarkosningum.
Pétur Marteinsson vann prófkjör Samfylkingarinnar um síðustu helgi og leiðir flokkinn í næstu borgarstjórnarkosningum.

Eins og fram hefur komið hefur Pétur Marteinsson verið kjörinn oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík í borgarstjórnarkosningum í maí. Pétur, sem er eigandi Kaffi Vest og fyrrverandi fótboltakempa, tilkynnti framboð sitt í oddvitasætið á nýársdag.

Hávær orðrómur var um að framboðið hefði verið skipulagt af forystumönnum flokksins, sem bæði Pétur og Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingar, höfnuðu. Sindri Sindrason skellti sér í morgunkaffi á fallegt heimili Péturs í vikunni og mátti sjá afraksturinn í Íslandi í dag á Sýn í gærkvöldi.

„Ég vissi náttúrulega aldrei hvernig þetta færi. Ég hefði getað lent í öðru eða þriðja eða fjórða eða dottið út af lista, en mér fannst þetta alltaf bara skemmtileg barátta,“ segir Pétur og bætir við: „Þú ferð ekkert inn á leikvöllinn án þess að ætla að skora.“

„Ég er að einhverju leyti róttækari heldur en Kristrún [Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar] í mörgum málum. Ég skil alveg hvað Kristrún mun gera. Hún er að búa til breiðfylkingu, sósíaldemókratíska breiðfylkingu eins og er á öllum Norðurlöndunum. Og það er mikilvægt. Og þá þarf hún að tala til allrar þjóðarinnar og það er hárrétt stefna.“

Pétur stofnaði Kaffi Vest á sínum tíma.

Pétur var spurður út í orð Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, sitjandi borgarstjóra, þegar hún sagði eftir prófkjör flokksins að hann hefði hafnað konu.

„Ég er femínisti og það er mörgum karlmönnum sem finnst mjög asnalegt að segjast vera femínisti, en ég er alveg harður af því og það er rétt að vera það. Meðan það er kynbundið ofbeldi, meðan fjármálum er stjórnað meira og minna af karlmönnum, þá eigum við að reyna að jafna þennan leik, annars náum við aldrei algjöru jafnvægi.“

Vantar hugmyndafræðilega umræðu

Pétur segist hafa haft þá skoðun í einhvern tíma að það vanti pólitíska umræðu um hugmyndafræði.

„Þegar verið var að byggja upp þetta skandinavíska velferðarmódel. Þá var þetta alltaf talað um á hugmyndafræðilegum forsendum. Olof Palme var mjög hugmyndafræðilega sinnaður. En nú er þetta alltaf bara, þessi virkjun þarna eða hvað eigum við að taka mikið peninga, hvað eigum við að láta fiskinn okkar kosta, einhver einstök mál. En ekkert svo hugmyndafræðilegt.“

Þá berst talið að reynsluleysi Péturs í stjórnmálum.

„Það er bara mjög fínt og það er bara gott fyrir mig að fá að svara þessu. Ég er fyrst og fremst hér vegna þess að ég er sósíaldemókrati. Ég er krati og mér fannst þurfa breytingar í borginni. Mér fannst þurfa töluverðar breytingar á lista Samfylkingarinnar til þess að geta unnið kosningarnar í vor.“

Hér að neðan má sjá innslagið í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.