Fótbolti

Juventus ítalskur meistari fimmta árið í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Juventus fagna eftir sigurinn á Fiorentina í gær.
Leikmenn Juventus fagna eftir sigurinn á Fiorentina í gær. vísir/getty
Juventus varð í dag ítalskur meistari fimmta árið í röð eftir 1-0 sigur Roma á Napoli.

Juventus fór langt með að tryggja sér titilinn með 2-1 sigri á Fiorentina í gær en Napoli þurfti að vinna síðustu fjóra leiki sína og treysta á að Juventus tapaði þremur síðustu leikjum sínum til að taka titilinn.

Það gekk ekki eftir því Napoli-menn biðu lægri hlut fyrir Rómverjum á útivelli í dag. Aðeins eitt mark var skorað í leiknum en það gerði belgíski miðjumaðurinn Radja Nainggolan þegar ein mínúta var til leiksloka.

Juventus byrjaði tímabilið illa en fór í gang í byrjun nóvember og hefur unnið 24 af síðustu 25 leikjum sínum og gert eitt jafntefli. Juventus hefur haldið hreinu í 17 af þessum 25 leikjum en markvörðurinn reyndi, Gianluigi Buffon, neitaði hreinlega að fá á sig mark á tímabili.

Eins og áður sagði er þetta í fimmta sinn í röð sem Juventus verður ítalskur meistari. Antonio Conte, verðandi knattspyrnustjóri Chelsea, var stjóri Juventus fyrstu þrjú skiptin en Massimiliano Allegri hefur stýrt liðinu til tveggja síðustu titlanna. Juventus er langsigursælasta lið Ítalíu með 32 meistaratitla.

Juventus á enn möguleika á að vinna tvöfalt en liðið mætir AC Milan í úrslitaleik ítölsku bikarkeppninnar á Ólympíuleikvanginum í Róm 21. maí næstkomandi.

Leikmenn Juventus fögnuðu vel og innilega eftir að titilinn var í höfn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×