Fótbolti

Nainggolan skaut Inter í Meistaradeildina en AC Milan situr eftir

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Radja skaut Inter í Meistaradeildina
Radja skaut Inter í Meistaradeildina vísir/getty
Það verða Atalanta og Inter sem verða fulltrúar Ítalíu í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð auk Juventus og Napoli sem höfðu fyrir löngu tryggt sér efstu tvö sætin en lokaumferð deildarinnar fór fram í dag og áttu fjögur lið möguleika á 3. og 4.sæti.

AC Milan situr eftir með sárt ennið þrátt fyrir að hafa unnið 2-3 sigur á SPAL þar sem Franck Kessie tryggði sigurinn skömmu fyrir leikslok. AC hafnar í 5.sætinu og fer því í Evrópudeildina líkt og AS Roma sem hafnar í 6.sæti en Rómverjar áttu mjög veika von á að ná fjórða sætinu fyrir lokaumferðina en 2-1 sigur þeirra á Parma dugði ekki til.

Atalanta og Inter unnu nefnilega sína leiki en Atalanta vann öruggan 3-1 sigur á Sassuolo á meðan Inter marði 2-1 sigur á Empoli en staðan var 1-1 fram á 81.mínútu þegar belgíski miðjumaðurinn Radja Nainggolan kom Inter í forystu.

Atalanta og Inter ljúka því keppni með 69 stig en AC Milan með 68 og Roma 66. Er þetta í fyrsta skipti í sögu Atalanta sem félagið öðlast keppnisrétt í Meistaradeild Evrópu.

Íslenski landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson lék allan leikinn á miðju Udinese þegar liðið lagði Cagliari 1-2 en Emil skoraði fyrra mark Udinese í leiknum. Emil og félagar ljúka keppni í 12.sæti.

Úrslit kvöldsins þýða jafnframt að Empoli er fallið niður í B-deildina en Genoa lyfti sér úr fallsæti með því að gera jafntefli við Fiorentina.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×