Kawhi Leonard, besti leikmaður úrslita NBA-deildarinnar á síðasta tímabili, og Paul George eru á förum til Los Angeles Clippers. Adrian Wojnarowski hjá ESPN greinir frá.
Beðið hafði verið eftir að Leonard tæki ákvörðun um framtíð sína. Hann lék með Toronto Raptors á síðasta tímabili og hjálpaði liðinu að vinna sinn fyrsta meistaratitil.
Leonard var með lausan samning eftir tímabilið og ræddi við Toronto og Los Angeles-liðin, Lakers og Clippers. Síðastnefnda liðið varð á endanum fyrir valinu.
Ein af forsendunum fyrir því var að Clippers landaði öðrum feitum bita á leikmannamarkaðinum, Paul George frá Oklahoma City Thunder.
Í staðinn fyrir George fær Oklahoma gommu af valréttum í nýliðavalinu næstu ár auk leikstjórnandans Shai Gilgeous-Alexander og framherjans Danilo Gallinari.
Eins og áður sagði varð Leonard meistari með Toronto í vetur og valinn besti leikmaður úrslitanna þar sem Toronto vann Golden State Warriors, 4-2. Leonard gerir fjögurra ára samning við Clippers sem færir honum 142 milljónir Bandaríkjadala í laun.
George átti sitt besta tímabil á ferlinum í vetur og var þriðji í valinu á verðmætasta leikmanni tímabilsins. Hann skoraði 28,0 stig, tók 8,2 fráköst og gaf 4,1 stoðsendingu að meðaltali í leik og var valinn í fyrsta úrvalslið tímabilsins.
