Innlent

62% gegn fjölmiðlafrumvarpinu

93% landsmanna telja líklegt að þau muni greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni um fjölmiðlalögin samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallups. 4,5% segja ólíklegt að þeir greiði atkvæði og 3% telja það hvorki líklegt né ólíklegt. Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins. Í könnuninni segjast 62% aðspurðra ætla að greiða atkvæði gegn fjölmiðlafrumvarpinu, 31% ætlar að samþykkja þau og rúm 7% segjast ekki ætla að greiða atkvæði eða skila auðu. Fleiri konur segjast ætla að synja lögunum, eða 66% á móti 59% karla. 27% kvenna og 34% karla segjast ætla að samþykkja lögin. Gallup kannaði afstöðu fólks út frá stjórnmálaflokkum til fjölmiðlalaganna. 66% þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokkinn og 36% framsóknarmanna segja að þeir muni samþykkja lögin en 24% sjálfstæðismanna og 53% stuðningsmanna Framsóknarflokksin ætla að synja lögunum. Mikill meirihluti kjósenda stjórnarandstöðuflokkanna ætlar að synja lögunum. 90% þeirra sem styðja Samfylkinguna eru í nei hópnum, og 82% Vinstri grænna falla í þann flokk. Ekki kemur fram í Þjóðarpúlsi Gallups hvernig Frjálslyndir ætla að greiða atkvæði. Einnig var spurt hvort fólk væri fylgjandi eða andvígt því að setja skilyrði um lágmarksþátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin. 41% er því fylgjandi  einhvers konar skilyrðum um lágmarksþátttöku en rúmlega 52% eru andvíg og tæplega 7% eru hvorki fylgjandi né andvíg. Gallup kannaði líka stuðning við þá ákvörðun forseta Íslands að staðfesta ekki fjölmiðlalögin. 61% þjóðarinnar studdi ákvörðunina en 32% voru á móti. 7% tóku ekki afstöðu. Könnun Gallup um fjölmiðlalögin var gerð dagana 9 til 22 júní, úrtakið var 1218 manna tilviljunarúrtak úr þjóðskrá. Þátttakendur voru á aldrinum 18 til 75 ára og var könnunin gerð í gegnum síma. Svarhlutfall var 63% prósent. Könnun Gallup á réttmæti ákvörðunar forseta Íslands um að neita að staðfesta lögin var gerð dagana 2. til 22 júní.1942 á aldrinum 16-75 ára lentu í úrtakinu sem var tilviljunarúrtak úr þjóðskrá. Svarhlutfall var 62% og var könnunin gerð í gegnum síma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×