Innlent

Enn ríkir óvissa

Formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks reyna að ná samkomulagi um þátttökuskilyrði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ríkisstjórnarfundur í dag. Þingmenn Framsóknar harðir á sínu. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og Davíð Oddsson forsætisráðherra funduðu í gær til þess að freista þess að ná samkomulagi um lagafrumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur, sem leggja á fyrir Alþingi á morgun. Stefnt hafði verið að því að leggja frumvarpið fram á ríkisstjórnarfundi í gær en ekkert varð úr því þar sem stjórnarflokkarnir höfðu ekki enn náð saman um lágmarks þátttökuskilyrði. Framsóknarmenn vilja að lágmarkið miðist við að 30 prósent kosningabærra kjósenda þurfi til að fella lög úr gildi en sjálfstæðismenn hafa lýst því yfir að þeir vilji að lágmarkið verði 44 prósent. Þeir stjórnarþingmenn sem Fréttablaðið ræddi við telja líklegt að Davíð og Halldór nái samkomulagi um málið fyrir ríkisstjórnarfundinn í dag. Halldór hefur umboð frá sínum þingflokki um að semja um allt að 30 prósenta mörkin. Þeir þingmenn Framsóknarflokksins sem blaðið ræddi við segja að verði niðurstaða formannanna sú að meira en 30 prósent þurfi til að fella lög úr gildi telji þeir sig óbundna til að fallast á það. Þá ríkir óvissa um afgreiðslu málsins á þingi. Reiknað er með því að frumvarpið, verði það tilbúið, verði kynnt þingflokkum beggja stjórnarflokkanna annað hvort eftir ríkisstjórnarfundinn í kvöld eða snemma í fyrramálið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×