Innlent

Þriðji hver fjarverandi

Þriðji hver alþingismaður var fjarverandi þegar forseti Íslands sór embættiseið í dag. Nær allir þingmenn stjórnarandstöðunnar voru viðstaddir en meira en helmingur stjórnarþingmanna sá sér ekki fært að mæta. Einn af hverjum þremur þingmönnum hafði öðrum hnöppum að hneppa þegar forseti Íslands sór embættiseiða í dag og lét því ekki sjá sig við athöfnina. Sumir áttu sannanlega ekki heimangengt, til að mynda forsætisráðherra og Árni R. Árnason sem báðir glíma við veikindi. Gríðarlegur munur var á mætingu stjórnarþingmanna og stjórnarandstæðinga. Hjá Framsóknarmönnum mættu 6 af 12 þingmönnum. Þeir sem mættu voru Guðni Ágústsson, Halldór Ásgrímsson, Jón Kristjánsson, Jónína Bjartmarz, Kristinn H. Gunnarsson og Valgerður Sverrisdóttir. Fjarverandi Framsóknarmenn voru: Árni Magnússon, Birkir J. Jónsson, Dagný Jónsdóttir, Hjálmar Árnason, Magnús Stefánsson og Siv Friðleifsdóttir. Verri mæting var hjá Sjálfstæðismönnum. Þar mættu einungis þessir 10 af 22 þingmönnum þeirra; Arnbjörg Sveinsdóttir, Árni M. Mathiesen, Bjarni Benediktsson, Drífa Hjartardóttir, Einar K. Guðfinnsson, Guðmundur Hallvarðsson, Halldór Blöndal, Sigríður A. Þórðardóttir, Sólveig Pétursdóttir og Sturla Böðvarsson. Þessir Sjálfstæðismenn voru fjarverandi: Birgir Ármannsson, Björn Bjarnason, Davíð Oddsson, Einar Oddur Kristjánsson, Geir H. Haarde, Guðjón Hjörleifsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Gunnar Birgisson, Pétur H. Blöndal, Sigurður Kári Kristjánsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir. 18 af 20 þingmenn Samfylkingarinnar mættu í dag. Þeir tveir sem voru fjarverandi voru Helgi Hjörvar og Rannveig Guðmundsdóttir. Hjá Vinstri grænum mættu allir nema Ögmundur Jónasson og Hjá Frjálslyndum vantaði sömuleiðis bara einn mann Gunnar Örlygsson. Alls mættu 16 af 34 stjórnarþingmönnum eða 47%, en hjá stjórnarandstæðingum var mætingin 86% þar sem 25 af 29 úr þeirra hópi voru við athöfnina í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×