Innlent

Skattadeilur hjá stjórnarflokkum?

Sjálfsstæðismenn eru reiðubúnir að lækka tekjuskatt um meira en fjögur prósent á kjörtímabilinu eða meira en kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum. Líklegt er að deilt verði um þessi mál á stjórnarheimilinu í haust en eins og fréttastofan komst að hafa þingmenn ólíkar skoðanir á því hvernig eigi að útfæra loforð um skattalækkanir. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að skattar verði lækkaðir á kjörtímabilinu, tekjuskattur á einstaklinga um allt að fjögur prósent, eignarskattur felldur niður, erfðafjárskattur samræmdur og lækkaður og virðisaukaskattkerfið tekið til endurskoðunar með það í huga að bæta kjör almennings. Þjóðin bíður þess enn að fá upplýsingar um það hvernig og með hvaða hætti staðið verði við þessi loforð. Þingmenn Sjálfsstæðisflokks þrýstu mjög á að fá loforðin fest í lög fyrir þinghlé. Einn þingmaður Sjálfsstæðisflokks, Gunnar I. Birgisson, gekk reyndar svo langt að segjast ætla að hreiðra um sig í þinghúsinu í sumarhléinu kæmi ekki fram skattalækkunartillaga. Hann stóð ekki við stóru orðin og bar því við í hádegisfréttum Bylgjunnar í vikunni að ekki hefði verið vært í húsinu vegna framkvæmda. Hvað um það. Sjálfsstæðismenn sem fréttastofan ræddi við segjast vilja sjá skattalækkanir hið fyrsta og blása á tal um að þær myndu auka á þenslu. Peningarnir verði í umferð, hvort sem ríkið fái að eyða þeim eða almenningur. Framsóknarmenn hafa ekki rætt útfærslur á skattalækkunum í þingflokknum samkvæmt heimildum. Þeir hafa markað sér þá stefnu að lækka ekki eingöngu skatthlutfall heldur auka persónuafslátt sem Sjálfsstæðismenn vilja ekki sjá. Náist á annað borð samkomulag um að lækka tekjuskattshlutfallið má búast við átökum um þetta atriði nú í haust.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×