Skattalækkanir í lok kjörtímabils
Landsmenn þurfa að bíða þar til í lok kjörtímabilsins eftir mestum hluta skattalækkana, að því er fram kom í stefnuræðu Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra. Helstu boðberar skattalækkana úr hópi stjórnarliða virðast ætla að láta sér það lynda. Í kosnigabaráttunni fyrir síðustu þingkosningar kepptust menn um að lofa skattalækkunum. Nú, þegar verið er að mæla fyrir fjárlögum á kjörtímabilinu, liggur ekki enn fyrir hvenær og hvernig loforðin verða efnd. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er boðað að tekjuskattsprósenta á einstaklinga verði lækkuð um allt að 4%, eignarskattur felldur niður, erfðafjárskattur samræmdur og lækkaður og virðisaukaskattkerfið tekið til endurskoðunar með það í huga að bæta kjör almennings. Í langtímaáætlun í ríkisfjármálum er tilgreint að um 20 milljörðum króna verði varið til skattalækkana og allt að 3 milljörðum króna til tiltekinna verkefna, svo sem til hækkunar barnabóta. Þegar liggur fyrir að tekjuskattshlutfall verður lækkað um eitt prósent um áramótin en í gærkvöldi sagði forsætisráðherra að nánari útfærsla skattalækkana yrði kynnt með frumvarpi á næstunni. Stjórnarflokkunum hefur hins vegar gengið hægt að ná saman um niðurstöðu. Halldór sagði í ræðu sinni að með hliðsjón af horfum í efnahagsmálum og tímasetningu sróriðjuframkvæmda er miðað við að skattalækkanir komi að mestu til framkvæmda í lok kjörtímabilsins. Pétur Blöndal segir mest um vert fyrir skattgreiðendur að það komi til skattalækkunar eins og lofað var, þó það gerist ekki fyrr en seinni hluta kjörtímabilsins.