Innlent

Skattar auknir á kirkjur

Eðlilegt er að ríkið greiði fasteignagjöld af eignum sínum eins og aðrir, segir Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og einn þriggja fulltrúa sveitarfélaga í tekjustofnanefnd, sem ræðir skiptingu tekna ríkis og sveitarfélaga. Rætt hafi verið um að sveitarfélögin fái hlutdeild í veltusköttum svo sem tryggingargjaldi, bensíngjaldi og husanlega virðisaukaskatti, sem þau hafi hingað til ekki haft tekjur af. Guðjón Bragason, formaður tekjustofnanefndar og skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu, segir að hugmyndum um fækkun undanþága til greiðslu fasteignagjalda hafi verið vel tekið af fulltrúum ríkisins í nefndinni. Hve langt eigi að ganga liggi ekki fyrir. Til greina komi að kirkjur og sjúkrahús greiði þau. Hann segir ómögulegt að ræða á þessu stigi hverjar endanlegar tillögur tekjustofnanefndar verði. Það skýrist í lok janúar. Halldór segir að ekki sé einblínt á að útsvar sveitarfélaganna verði hækkað þó um það hafi verið rætt. Breyting af því tagi nægi ekki til að bæta hag minni sveitarfélaga: "Við erum að tala um að þeir sem standi verst fái enn frekar tekjur í gegnum jöfnunarsjóð sveitarfélaganna," segir Halldór. Undir það tekur Guðjón og segir að til dæmis sé verið að ræða um 400 milljóna aukafjárlag til sjóðsins á þessu ári. Fjölmargir sveitarstjórnarmenn hafa sett sig í samband við Halldór og greint frá erfiðleikum með að láta fjárhagsáætlanir næsta árs stemma. Staða sveitarfélaganna sé slæm en ekki sé hægt að stóla á leiðréttingu tekjustofnanna við gerð fjárhagsáætlana næsta árs. Fyrstu breytingarnar gætu í fyrsta lagi gengið í geng á komandi hausti, segir Halldór: "Kröfur okkar eru þær að leiðrétta stöðu sveitarfélaganna þannig að þau verði ekki rekin með þriggja og hálfs milljarðs tapi eins og var árið 2003. Við höfum rætt um að það sé lágmarkskrafa okkar að jafna þetta tap."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×