Sport

Keflavík mætir Fribourg

Keflavík sótti portúgalska liðið Madeira heim í bikarkeppni Evrópu í körfuknattleik í fyrrakvöld. Leikurinn var jafn þangað til í lokaleikhlutanum þar sem Madeira sigldi fram úr og vann með tíu stigum, 92-82. Keflvíkingar réðu lítið við bakverði heimamanna að þessu sinni. Mario-Gil Fernandes skoraði 24 stig, þar af 18 úr þriggja stiga skotum en maður vallarins var Bobby Joe Hatton sem skoraði 21 stig og gaf 13 stoðsendingar. Fögnuður Madeira var gríðarlegur í lokin enda tryggði liðið sér þriðja sætið í riðlinum og komst þar með áfram í keppninni. Magnús Þór Gunnarsson var stigahæstur Keflavíkurliðsins með 20 stig en Nick Bradford skoraði 19 stig, tók 8 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Keflvíkingar mæta svissneska liðinu Benetton Fribourg í 8 liða úrslitum en liðin leika tvo leiki, og gilda samanlögð úrslit úr leikjunum tveimur. Fyrri leikurinn fer fram 13. janúar í Sviss en seinni leikurinn 20. janúar í Keflavík. Standi liðin jöfn eftir tvo leik verður gripið til oddaleiks og eru Keflvíkingar með heimaleikjaréttinn. Fribourg hefur staðið sig ágætlega í Evrópukeppninni en ekki í svissnesku deildinni. Liðið er í 9. sæti og er með 10 stig eftir 10 leiki. Nick Bradford, Magnús Þór Gunnarsson og Anthony Glover hafa farið fyrir sínum mönnum í bikarkeppninni til þessa og hafa þeir samanlagt skorað 62,4 stig, 21,4 fráköst og gefið 9 stoðsendingar fram til þessa. Gunnar Einarsson byrjaði vel í keppninni en hefur ekki gengið heill til skógar upp á síðkastið. Hann verður vonandi klár í slaginn fyrir átökin í janúar þar sem Keflavík eygir góða von um að gera betur en í fyrra þegar liðið var slegið út af franska liðinu Dijon í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. smari@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×