Innlent

Rafmagnsreikningar hækka um áramót

Búist er við rúmlega tíu prósenta hækkun raforkuverðs á höfuðborgarsvæðinu um áramót. Samanlögð gjöld gætu þá hækkað um tæpan milljarð króna. Stjórnir Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja komu saman nýlega og ræddu stöðuna en lög sem voru samþykkt á Alþingi í vor gera ráð fyrir að framleiðsla og dreifing raforkukerfisins verði aðskilin og dreifikerfið verði að bera sig sjálft, án stuðnings frá raforkuframleiðslunni. Ellert Eiríksson, stjórnarformaður Hitaveitu Suðurnesja, segir að það stefni í tíu prósenta hækkun á raforkuverði. "Við vorum sagðir svartsýnir þegar lögin voru í undirbúningi og við vöruðum við mikilli hækkun á raforkuverði en það hefur komið í ljós að við vorum ekki nægilega svartsýnir," segir Ellert. "Við sitjum núna yfir útreikningum og erum að reyna að finna leið til að viðskiptavinir okkar fái sem hagstæðasta útkomu en því miður reynist kostnaðurinn sem er búinn til í þessu nýja kerfi meiri en okkar svartsýnustu spár sögðu til um." Samkvæmt heimildum blaðsins stefnir í að hækkanir Orkuveitu Reykjavíkur verði líka í kringum tíu prósent. Ekki er langt síðan Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, átti fund með Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra og lýsti yfir áhyggjum af verðhækkunum í kjölfar nýju laganna. Markmið laganna er að jafna orkuverð á landinu og iðnaðarráðherra hefur spurt í pistli á vefsíðu sinni hvort það sé ósanngjarnt að íbúar á suðvesturhorninu taki þátt í jöfnun á orkuverði. Heimili á höfuðborgarsvæðinu greiða að meðaltali í kringum 70 þúsund krónur á ári. Miðað við það má gera ráð fyrir að samanlögð hækkun á höfuðborgarsvæðinu verði á bilinu hálfur til einn milljarður króna. Þórólfur Árnason, fyrrverandi borgarstjóri, sagði fyrr á þessu ári að rætt hefði verið um að greiðslur fyrirtækja og einstaklinga til Orkuveitu Reykjavíkur gætu hækkað um allt að milljarð króna á ári vegna breytinganna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×