Innlent

Iðjusemi ekki mæld í málgleði

Alþingismenn eru komnir í mánaðarlangt jólafrí og geta hvílt lúin bein næsta mánuðinn eða svo. Það sem af er þingi er Steingrímur J. Sigfússon ræðukóngur Alþingis en hann hefur látið gamminn geisa í rúmar tólf stundir en Guðrún Ögmundsdóttir hefur hins vegar dvalið manna styst í pontu, alls fjórar mínútur. Af hverju hefurðu ekki talað meira? "Það hafa ekki verið merkilegri mál á dagskrá. Þingmenn eiga ekki að tala til þess eins að tala. Það voru fá mál sem tilheyra þeim nefndum sem ég sit í sett fram og ég hef enn ekki mælt fyrir mínum málum. Það er náttúrulega kominn hálfleikur. Þegar fréttist að það væri verið að mæla tímann áttu sumir þingmenn það til að lesa upp nefndarálit í pontu bara til þess að vinna tíma. Ég nenni þessum þykjustuleik ekki." Muntu tala meira eftir áramót?"Það er nú spurning hvað kemur frá dómsmálaráðherra en það má búast við mikilli umræðu um refsimál til dæmis, sem hafa verið rædd í nefnd. Ég hef verið mjög virk í ýmsum málum í þinginu þó það speglist ekki endilega í tímafjölda í ræðustól. Þetta hefur verið afar dauft þing, fá stjórnarfrumvörp hafa verið lögð fram en fleiri þingmannafrumvörp og þess vegna eru einstaka þingmenn sem annars tala ekki mikið frekar háir í þessum mælingum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×