Innlent

Málamiðlun um nýtt háhýsi

Síðastliðinn þriðjudag samþykktu tíu bæjarfulltrúar af ellefu í bæjarstjórn Akureyrar að SS Byggir fengi að reisa sjö hæða fjölbýlishús, með 40 íbúðum fyrir aldraða, á lóð sem kennd er við húsið Baldurshaga og er á milli Glerártorgs og gamla miðbæjarins. SS Byggir vildi reisa tólf hæða byggingu en vegna andstöðu bæjarbúa sættist bæjarstjórn á málamiðlunartillögu frá Kristjáni Þór Júlíussyni bæjarstjóra. Upphafleg umsókn SS Byggis hljóðaði upp á tólf hæða fjölbýlishús með 45 íbúðum en tæplega 1.700 Akureyringar undirrituðu yfirlýsingu þar sem þeim áformum var mótmælt. Í kjölfarið var ákveðið að minnka ummál byggingarinnar. Samkvæmt þeirri hugmynd átti byggingin áfram að vera tólf hæðir en með 36 íbúðum. Í viðhorfskönnun sem IMG Gallup á Akureyri framkvæmdi að eigin frumkvæði, og kynnt var í síðustu viku, kom í ljós að af þeim 62% sem þátt tóku í könnuninni voru rúmlega 60% andvíg tólf hæða byggingu á þessum stað. Um helmingur þeirra sem andvígir voru sögðu það ekki breyta afstöðu sinni þó að byggingin yrði lækkuð niður í fjórar til sjö hæðir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×