Innlent

Hægrimenn herja á Halldór

Samband ungra sjálfstæðismanna hefur sent Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra að gjöf bókina „Sigmund sér til þín!" Með þessu vilja ungir sjálfstæðismenn mótmæla þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að kaupa allar teikningar listamannsins fyrir 18 milljónir króna af skattfé. Í yfirlýsingu SUS segir að fjölmargir Íslendingar hafi fest kaup á verkum Sigmunds í gegnum árin og jafnframt séu þau aðgengileg almenningi á opinberum bókasöfnum. "Þessi fjárfesting ríkisins á verkum Sigmunds er því óþörf og samræmist hvorki hlutverki ríkisvaldsins né stefnu Sjálfstæðisflokksins um minnkandi ríkisafskipti." Skoðanabræður SUS-ara í vefritinu Vefþjóðviljanum taka undir þessi sjónarmið og tengja það stuðningi hins opinbera við menninguna: "Núna síðast var Reykjavíkurborg að kaupa „tilfinningatorg" af rithöfundi einum og gott ef rithöfundurinn er ekki búinn að bjóðast til að verða starfsmaður torgsins." Vefþjóðviljinn sakar listfræðinga sem mótmæltu kaupunum í Fréttablaðinu í gær um hræsni: "En svo þegar ríkið kaupir allar frummyndir Sigmúnds, og eignast til þeirra öll réttindi, myndir sem þorri landsmanna kannast við og margir hafa haft mjög gaman af, þá er skyndilega látið eins og kaupandinn hafi misst vitið...En hvers vegna þessi viðbrögð ýmissa annarra nú? Þykir menningarliðinu Sigmúnd kannski ekki nægilega fínn? Óvenjulegur maður í Vestmannaeyjum, gott ef ekki kunningi Árna Johnsen. Nei, þá viljum við nú frekar kaupa dósahrúgu og sýna hana í Listasafni Íslands. Og fá opnunarhóf og kampavín", segir Vefþjóðviljinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×