Innlent

Elsti skatturinn aflagður

Alþingi setti nýlega lög sem marka að mörgu leyti tímamót í skattasögu Íslendinga því að með breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt var felldur niður eignarskattur einstaklinga og lögaðila. Síðasta álagning eignarskatts á sér því stað árið 2005 vegna eigna í árslok 2004. Eignaskattur var fyrstur skatttegunda tekinn upp 1096/1097 þegar tíundarstatútata Gissurar biskups Ísleifssonar var lögfest og er því sá skattur sem lengst hefur verið við lýði hér á landi. Undirstaða íslensku tíundarinnar var eignin. Sá sem átti 100 (=120) sex álna aura skyldi greiða sex álnir eða eitt prósent á ári. Tíundarskyldir voru allir, konur jafnt sem karlar 16 ára og eldri sem áttu skuldlausa eign. Tíundin skiptist í fjóra hluta og var einn hluti ætlaður fátæklingum, annar biskupi, þriðji kirkju og fjórði prestum. Árið 1556 yfirtók konungur biskupstíundina en það var ekki fyrr en eftir að Íslendingar fengu stjórnarskrá 1874 og löggjafarvald í eigin fjármálum að konungstíundin var afnumin með lögum frá árinu 1877. Það ár voru lögfest lög um húsaskatt sem giltu til ársins 1921 þegar fyrstu almennu lögin um tekjuskatt og eignarskatt voru lögfest. Fram til nú hafa þessi lög verið með ákvæði um eignarskatt. Þeir hlutar tíundarinnar sem runnu til kirkjunnar og presta voru ekki afnumdir fyrr en 1909 og fátækratíundin ekki fyrr en árið 1914. Með afnámi eignarskattsins er ljóst að stigið verður merkilegt skref í sögu skatta hér á landi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×