Innlent

Fastagjaldið hækkar

Tilkynnt var í gær að almennur taxti hjá Orkuveitu Reykjavíkur muni nú 1. febrúar hækka um 3,89 prósent. Gjald á almennum taxta mun lækka um 3,5 prósent, en fastagjaldið mun þess í stað hækka um 3.204 krónur á ári, sem er um helmingshækkun. Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitunnar, segir þessa hækkun eingöngu koma til, til að mæta verðhækkunum sem Orkuveitan verður fyrir hjá Landsvirkjun og Landsneti hf. vegna breytinga á raforkulögum nú um áramót. Nú verða til dæmis dreifikerfi sjálf að standa undir sér. Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformaður Orkuveitunnar, sagði að þrátt fyrir þessa hækkun verði verð á rafmagni til heimila lægst á landinu hjá Orkuveitunni. Hitaveita Suðurnesja, sem oft hefur haft lægstu raforkugjöldin, er nú einnig að hækka orkuverð sitt. Ákveðið hefur verið að í Hafnarfirði og á Suðurnesjum muni orkutaxtinn hækka um 4,8 prósent. Þá munu fastagjöldin á öllu svæðinu hækka um 3.600 krónur á ári, sem er rúm helmingshækkun. Orkutaxtinn í Vestmannaeyjum og í Árborg munu lækka um 3,5 prósent.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×