Innlent

Auglýsir fé til mannréttindamála

Dómsmálaráðuneytið auglýsti til umsóknar þær fjórar milljónir króna sem ráðuneytið hefur til ráðstöfunar vegna starfa að mannréttindamálum. Tekið er fram í auglýsingunni að fénu verði úthlutað á grundvelli umsókna, en þær verða að berast ráðuneytinu fyrir næstu mánaðamót. Guðrún Dögg Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, segir að Mannréttindaskrifstofan hafi þegar fyrir áramót lagt inn umsókn til ráðuneytisins þegar ljóst hafi verið að ekki væri gert ráð fyrir fjárveitingu til stofnunarinnar á fjárlögum, líkt og verið hafi fyrri ár. Upphæðin sem ráðuneytið auglýsir nú til umsóknar er ámóta og sú sem Mannréttindaskrifstofunni hefur verið úthlutað á fjárlögum síðustu ár. Ákvörðunin um að úthluta Mannréttindaskrifstofunni ekki rekstrarfé á fjárlögum var harðlega gagnrýnd fyrir áramót og benti framkvæmdastjóri skrifstofunnar þá á að ámóta skrifstofur séu í nágrannalöndunum reknar með tugi starfsmanna, meðan hér sé varla hægt að halda úti einum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×