Erlent

Varar Sýrlendinga og Írana við

Bush Bandaríkjaforseti notaði stefnuræðu sína í gær meðal annars til að vara bæði Sýrlendinga og Írana við því að eiga samstarf við hryðjuverkahópa. Ljóst þykir að Bandaríkjastjórn mun á næstunni beina sjónum sínum að þessum tveimur löndum. Bush setti klárlega tóninn fyrir utanríkisstefnu sína í stefnuræðunni í gær og hjó í sama knérunn og nýskipaður utanríkisráðherra, Condoleeza Rice, þegar hún nefndi nýverið sex einræðisríki heimsins sem Bandaríkin myndu fylgjast með. Bush þrengdi hópinn og nefndi sérstaklega Sýrland og Íran. Hann hvatti nánast til uppreisnar í Íran því hann hvatti Írana til að standa gegn ríkisstjórn sinni og fullyrti að ef Íranir vildu opna dyr sínar fyrir frelsi og lýðræði þá væri stuðningur Bandaríkjamanna vís. Þá sagðist Bush mjög ánægður með þróun mála fyrir botni Miðjarðarhafs og hét því að Palestínumenn fengju ríflega styrki frá Bandaríkjamönnum á kjörtímabilinu. Stefnuræða Bush snerist hins vegar að mestu um innanríkismál og þá einkum velferðarmál. Hann eyddi drjúgum tíma í að ræða um fyrirhugaða skerðingu á lífeyrisréttindum Bandaríkjamanna því allt stefndi í að lífeyrissjóðir landsins yrðu gjaldþrota, héldist núverandi kerfi óbreytt. Bush lagði til að stjórnvöld kæmu í staðinn til móts við fólk með skattalækknum og svo sæi ungt fólk sjálft um það að fjárfesta í verðbréfum og hlutabréfum til að búa sér í haginn fyrir efri ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×