Erlent

Saka hvor annan um hræðsluáróður

Spennan magnast á kjördegi í Danmörku. Tveir stærstu flokkarnir saka hvor annan um hræðsluáróður í dagblaðaauglýsingum. Stjórnin heldur velli samkvæmt nýrri skoðanakönnun en bæði Venstre og jafnaðarmenn missa þingsæti. Sighvatur Jónsson er í Danmörku. Rúmlega hundrað kjörstaðir voru opnaðir klukkan rúmlega níu í morgun. Fjórar milljónir Dana velja á milli tæplega þúsund frambjóðenda fyrir klukkan 20 í kvöld að dönskum tíma. Klukkatíma fyrr birta danska ríkissjónvarpið og TV2 fyrstu útgönguspár. Búist er við fyrstu tölum klukkan 20 að íslenskum tíma og helstu úrslit á landsvísu ættu að liggja fyrir á ellefta tímanum. Endanleg úrslit verða þó ekki tilkynnt fyrr en um sólarhring síðar, eftir svokallaða fíntalningu sem fer fram á morgun. Kosningaþátttakan var 87% í síðustu þingkosningum. Þá sat hálf milljón Dana heima. Klukkan 11 í morgun höfðu 16% kosið á móti 19% síðast en nú er einmitt hálf milljón kjósenda óákveðin og freista flokkarnir að ná til þessa hóps í beinskeyttum dagblaðaauglýsingum í dag. Frjálslyndi hægri flokkurinn Venstre rær á sömu mið og í gær og varar við að atkvæði greidd miðjuflokknum Radikal Venstre og fleiri flokkum þýði að andstæðingurinn, Mogens Lykketoft, formaður Jafnaðarmannaflokksins, verði forsætisráðherra. Jafnaðarmenn gagnrýna Venstre fyrir hræðsluáróður á endaspretti kosningabaráttunnar. Sama segja Venstre-menn um þá aðferð jafnaðarmanna að láta dönsku leigjendasamtökin biðla til milljón meðlima sinna í dagblaðaauglýsingum í dag með því sem Venstre kallar útúrsnúning á orðum forsætisráðherrans, Anders Fogh Rasmussens, um breytingar á húsaleigu. Gallup-könnun í Berlingske Tidende í morgun sýnir að stjórnin heldur velli þrátt fyrir að Venstre missi þrjú þingsæti þar sem þau flytjast til Íhaldsflokksins, samstarfsflokks Venstre. Jafnaðarmennn missa átta þingsæti samkvæmt könnuninni, sjö af þeim fara til miðjuflokksins, Radikal Venstre. Svörin við stóru spurningunum liggja því handan við kjörborðið: Verður Anders Fogh áfram forsætisráðherra eða nær Lykketoft embættinu á lokasprettinum? Ná jafnaðarmenn að rétta úr kútnum eða fá þeir verstu útkomu í 30 ár? Og hvað með Radikal Venstre; fá þeir glimrandi kosningu og hvaða þýðingu hefði það svo fyrir stjórnarmyndun? Vísbendingar um svör við þessum spurningum munu liggja fyrir í fyrstu útgönguspám sem verða birtar rétt fyrir kvöldfréttir Stöðvar 2 og Bylgjunnar klukkan 18.30 í kvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×