Erlent

Harkan sex var kjörorðið

Harkan sex var kjörorðið, síðasta dag kosningabaráttunnar í Danmörku. Flokkarnir birtu heilsíðuauglýsingar í dagblöðum þar sem hræðsluáróðri var beitt á óákveðna kjósendur. Kjörstöðum verður lokað klukkan sjö að íslenskum tíma en samkvæmt fyrstu útgönguspám heldur stjórnin velli. Kjörstaðir opnuðu klukkan níu í morgun og hefur kjörsókn verið um þremur prósentum minni en í síðustu þingkosningum það sem af er degi. Ólíkt Íslandi er kosið á virkum degi. Einn starfsmaður á kjörstað í dag sagðist því ekki fá yfirvinnu og þetta bæri vott um sparnaðarhugsun Dana. Kosningabaráttan snerist jú um budduna hjá almenningi og lofuðu stjórnmálamenn að skapa fjölda nýrra starfa, setja meiri pening í menntun, hækka barnabætur og lækka dagvistunargjöld. Fjölmiðlar í Danmörku segja kosningabaráttuna þá ýktustu til þessa, með tilliti til loforðaflaumsins. Umræðan dreifðist á marga málaflokka en samkvæmt mælingu á fjölmiðlatími var mest rætt um atvinnumál, því næst innflytjendamál og svo menntamál. Flokkarnir tíu hafa verið gagnrýndir fyrir að vera of líkir. Þeir hafa þó tekist harkalega á um innflytjendamál þar sem danski Þjóðarflokkurinn þykir ganga hvað harðast fram. Pia Kjærsgaard, formaður flokksins, sagðist í dag vona að kosningaþátttakan yrði mikil. Veðrið væri alla vega gott og því engin afsökun fyrir því að sitja heima. „Það sem er mikilvægast fyrir Þjóðarflokkinn er að meirihluti hans, Venstre og Íhaldsflokksins haldist,“ sagði Kjærsgaard. Jafnaðarmenn vilji fella stjórnina og vona að uppgangur miðjuflokksins, Radikale Venstre, geti hjálpað til. Kannanir hafa sýnt að stjórnin heldur velli og Anders Fogh forsætisráðuneytinu en atkvæði óákveðinna kjósenda geta þó skipt sköpum á lokasprettinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×