Erlent

Víglína í átökum við Bandaríkin

Sýrland er vaxandi vandamál að mati utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Tilgangur bandalags Sýrlendinga og Írana er óljós en því er velt upp hvort það sé eins konar víglína í átökum við Bandaríkin. Töluverð spenna myndaðist í kjölfar tíðindanna af samvinnu Sýrlendinga og Írana til að bregðast við sameiginlegum ógnunum, eins og það var orðað. Skilja má það sem svo að bandalaginu sé einkum ætlað að bregðast við þrýstingi frá Bandaríkjunum þar sem yfirvöld segjast vera síður en svo ánægð með Sýrlendinga. Svo virðist sem morðið á fyrrverandi forsætisráðherra Líbanons hafi verið kornið sem fyllti mælinn, þó að engar sannanir liggi fyrir um aðild Sýrlendinga að morðinu. Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir Bandaríkjamenn ekki hafa fengið mikla hjálp og Sýrlendingar verði að skilja að þeir líti mjög alvarlegum augum allar athafnir utan Sýrlands sem geti stefnt bandarískum hermönnum í hættu. Og því miður fari listinn yfir vandamál varðandi Sýrland vaxandi. Rice sagði ekki liggja fyrir á þessari stundu hversu lengi sendiherra Bandaríkjamanna, sem kallaður var heim frá Sýrlandi, verði fjarverandi.  Ekkert liggur fyrir um tilgang og eðli samvinnunnar en sjálfir vilja Sýrlendingar hins vegar ekki að bandalagið sé túlkað sem einhvers konar sameiginleg víglína í átökum við Bandaríkin og sagði sendiherra Sýrlands í Washington að Sýrland væri vinur Bandaríkjanna sem vildi samvinnu og viðræður. Íranar virðast hins vegar vera búnir undir hvað sem er og í dag greindi varnarmálaráðherra landsins frá því að árás yrði svarað þegar í stað og af mikilli hörku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×