Erlent

Gleðitár runnu í Palestínu

Gleðitár runnu um gervalla Palestínu í dag þegar fimm hundruð palestínskir fangar sneru aftur til síns heima úr ísraelskum fangelsum. Lausn fanganna er hluti af nýsamþykktu vopnahléi Ísraela og Palestínumanna. Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út þegar föngunum var sleppt í dag á landamærastöðvum bæði á Vesturbakkanum og Gaza. Þetta var tilfinningaþrungin stund enda voru margir að sjá fjölskyldur sínar á nýjan leik eftir áralanga fangelsisvist. Alls sitja um 8000 palestínskir karlmenn í ísraelskum fangelsum og lausn þeirra er orðið að einum umdeildasta ásteitingarsteininum á milli fylkinganna tveggja. Í kjölfar vopnahléssamkomulagsins í byrjun mánaðarins samþykkti Ísraelsstjórn að sleppa um 900 föngum lausum sem flestir höfðu þegar setið að minnsta kosti tvo þriðju hluta fangelsisdóms síns. Því verður fjögur hundruð til viðbótar við þessa fimm hundruð sem fengu frelsi sitt í dag sleppt á næstu þremur mánuðum. Enn sem komið er neitar Ísraelsstjórn hins vegar að verða við kröfum um að láta fleiri Palestínumenn lausa úr haldi og alls ekki þá sem hafa verið viðriðnir árásir á ísraelska þegna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×