Erlent

Powell: Of fáir hermenn í Írak

MYND/Reuters
Fleiri hermenn hefði þurft til að taka á ástandinu að loknum stríðinu í Írak, segir Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Hann telur að Bandaríkjastjórn verði að leggja sig fram við að bæta samskiptin við Evrópuríki. Þegar Powell lét af embætti utanríkisráðherra Bandaríkjanna í síðasta mánuði var talið víst að það væri vegna óánægju með stefnu stjórnarinnar en enginn átti von á því að Powell myndi greina frá óánægju sinni á næstunni. En í dag birti breska dagblaðið Daily Telegraph viðtal við Powell þar sem hann gagnrýnir fyrrverandi samstarfsmenn sína og stefnu Bush forseta, einkum hvernig málum í Írak var hagað. Powell segir til dæmis að fleiri hermenn hefði þurft í Írak í kjölfar stríðsins til að takast á við ringulreiðina og skálmöldina sem tók við. Stríðið sjálft hafi verið skipulagt af snilld en því sem fylgdi í kjölfarið hafi verið klúðrað. Þó að Powell skelli ekki skuldinni á Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra fer ekki á milli mála hver það er sem sem hann telur bera ábyrgðina á því hvernig fór og hver ein meginástæða afsagnar Powells er. Powell segist hafa varað yfirmenn sína - þ.e. Bush forseta - við því að erfiðleikarnir myndu fyrst hefjast að loknu stríði því að Írak væri eins og kristalkúla sem splundraðist og það væri vandamál Bandaríkjanna að hreinsa til. Hann kveðst hafa varað Bush forseta við þessu og af þeim sökum hafi Bush heimilað honum að leita enn á ný til Sameinuðu þjóðanna og fá þar samþykkta lokaályktun sem Frakkar og fleiri komu í veg fyrir. Samskipti Bandaríkjanna og Evrópu eru einnig Powell hugleikin og hann segir að Bandaríkin verði að leggja sig fram við að bæta samskipti við Evrópuríki sem og Evrópubúa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×